151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þessum spurningum sem mér heyrðist þó á ráðherranum að hann viti þegar svarið við, enda kom ég aðeins inn á það í ræðunni áðan. Þetta er ekki bara spurning um stærð bankans. Þetta er líka spurning um regluverkið, eiginfjáraukann, eins og hæstv. ráðherra kallaði það. Það má líka kalla þetta varasjóð bankanna til að takast á við erfiðar aðstæður. Í því efni sker Ísland sig algjörlega úr hvað varðar kröfuna um eiginfjárauka, sem er mikill baggi á lántakendum bankanna, hvort sem það eru litlu fyrirtækin eða heimilin. Þetta fjármagn er ekki í vinnu, það er ekki að búa til verðmæti, þannig að bankinn þarf að draga það með sér og leggja þeim mun hærri skatta á þá sem taka fjármagn að láni.

Aðstæður núna kalla á að þarna verði gerð breyting á. Ísland getur varla ætlað sér að vera í algerum sérflokki hvað þetta varðar, með þessar kröfur sem, eins og ég hef ítrekað nefnt, fela augljóslega í sér hærra verð til neytenda, ekki frekar en Ísland ætlar sér að vera eina landið í Evrópu þar sem bankarekstur er að stærstu leyti í höndum ríkisins. En þessa hluti, regluverkið, og hvað er óhætt og hvað er rétt að gera núna, finnst mér eðlilegt að við leiðum til lykta áður en að bankinn er seldur með þessu óbreytta regluverki, sem virkar ekki við núverandi aðstæður þegar varasjóðurinn er baggi (Forseti hringir.) á samfélaginu frekar en að nýtast í uppbyggingu efnahagslífsins.