151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki margt óvænt í þessari ræðu. Það er einhvern veginn þannig að hv. þingmaður telur aldrei rétta tímann til að losa um eignarhald ríkisins. En maður spyr sig: Er það svo að hv. þingmaður óttist að við hér á Alþingi, ríkisstjórn hvers tíma, muni bara hætta að velta fyrir sér framtíðarskipulagi á fjármálamarkaði eftir að eignarhluturinn í Íslandsbanka hefur verið seldur, að það séu tímamótin? Þá hætti menn að nenna að hugsa um framtíðarskipulag á fjármálamarkaði? Eða hvers vegna hjálpar eignarhaldið til að ákveða hvaða skipulag við viljum hafa á fjármálamarkaði?

Ég heyrði það sem hv. þingmaður sagði, að við ættum að nýta tækifærið núna, nýta tækifærið sem liggur í eignarhaldinu. Hvað þýðir þetta? Á að gera það erfiðara að reka banka eða á að gera það auðveldara? Ef við ætlum að gera það auðveldara, losa um hömlur eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði aðeins um hérna áðan, losa um byrðarnar sem fylgja því að reka fjármálafyrirtæki, þá mun starfsemin verða arðbærari. Það má alveg færa fram þau rök að það verði að gera áður en bankinn er seldur til þess að við fáum hærra verð, við verðum að losa alls konar byrðar af fjármálafyrirtækjum og svo selja í framhaldinu til að hámarka verðið. Ef það á hins vegar að gera þetta erfiðara, eins og mér fannst hv. þingmaður segja, að það þyrfti að einfalda starfsemina og banna mönnum að vera að stunda alls konar hliðarstarfsemi eins og fjárfestingarbankastarfsemi og fleira, þá mun draga úr arðseminni og þá munu menn eyðileggja virði Íslandsbanka. Þess vegna spyr ég: Væri ekki nær að selja bara Íslandsbanka, láta hann fara sína leið og stofna þennan banka sem hv. þingmaður er að tala um, þann sem hana dreymir um, og taka ákvörðun um það hversu marga tugi milljarða eigi að taka til hliðar til að stofna þennan draumaríkisbanka sem gerir ekkert nema að stunda svona tiltölulega óarðbæra starfsemi? Hversu marga tugi milljarða vill hv. þingmaður (Forseti hringir.) taka til hliðar til þess að ná draumabankanum?