151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Hann ræðir um tímaskort, ég geri ráð fyrir að við séum ekki alveg á sömu blaðsíðunni þar. Ég hef horft svolítið til þess að á þessu kjörtímabili hefur farið fram töluverð undirbúningsvinna til að greina fjármálakerfið og í hvítbókinni er sá leiðarvísir sem komið hefur út um það. Það kann vel að vera að hv. þingmanni finnist hann þurfa meiri upplýsingar eða meiri tíma til þess að taka þátt í að senda umsögn frá þinginu um þetta mál. Mér finnst sú vinna sem farið hefur fram, alla vega í þeirri þingnefnd sem ég starfa í, vera þess eðlis að þær upplýsingar sem við þurfum til að taka afstöðu eða til að meta stöðuna hafa legið fyrir. Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að leggja fram jákvæða umsögn með þeim meiri hluta sem kann að myndast í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég byggi það náttúrlega ekki síður á því að það eru ekki sterk rök fyrir því, hvorki hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði né neinum öðrum stjórnmálaflokki á Íslandi, að ríkið eigi allan þennan eignarhlut, eigi svona ráðandi hlut í fjármálakerfinu. Varðandi tímasetninguna eða tímaskort sem kann að vera þarna þá er óskaplega einstaklingsbundið hvað mönnum finnst þeir þurfa til að taka ákvarðanir og velta fyrir sér hvaða staða er uppi. Mér finnst ég hafa fengið þær upplýsingar í minni nefnd sem ég þarf til þess að taka ákvörðun og svo verður náttúrlega hver þingmaður að meta það fyrir sig.