151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir andsvarið. Í ræðu minni áðan kom fram að ég tel það algerlega einboðið, sem varðar einmitt það sem hann nefndi um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, að klára það frumvarp sem liggur fyrir þinginu núna áður en þessi sala fer fram. Ég tel það mjög mikilvægt. Þingmaðurinn talaði um hver væri stefna Vinstri grænna. Ég fór yfir það í ræðu minni. Vinstri græn hafa ályktað um það og það er í stefnu Vinstri grænna að við eigum að eiga að fullu einn af kerfislega mikilvægu bönkunum og við höfum litið svo á að það sé Landsbankinn. Það fer ekkert á milli mála í stefnu Vinstri grænna. Varðandi það sem þingmaðurinn kom inn á að það sé enginn annar að selja banka: Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það eru bara engin önnur ríki í Evrópu sem eiga svona stóran hlut á fjármálamarkaði. Það þarf þá kannski engan að undra að þau selji þá ekki. Ég ítreka líka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, að menn mega ekki tala þannig, og það hefur enginn íslenskur stjórnmálaflokkur haldið því fram, að það að bankarnir komu í raun til íslenska ríkisins sem greiðsla, sem stöðugleikaframlög, í kjölfar bankahrunsins ætti að þýða að þar með væri ríkið orðið ævarandi rekstraraðili að tveimur þriðju hlutum bankakerfisins. Það er ekki þannig.