151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tímasetninguna. Hún skiptir máli. Að sjálfsögðu skiptir máli hvenær við seljum hlut ríkisins í svona stóru fyrirtæki eins og Íslandsbanka. Það skiptir máli hvenær við byrjum að einkavæða bankana. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér í því eða geti að hluta til tekið undir að það er sérkennilegt að hefja hér umfangsmikið söluferli á þeim tíma þar sem íslenskt hagkerfi er í djúpri kreppu og heimshagkerfið er sömuleiðis í djúpri kreppu. Það hlýtur að hafa áhrif á verðið sem við fáum annars vegar en hins vegar hlýtur það að hafa áhrif á hversu margir kaupendur eru fyrir hendi. Hv. þingmaður lærði viðskiptafræði eins og ég og veit að framboð og eftirspurn helst í hendur. Ef framboðið af kaupendum er að kljást við djúpa kreppu og fjárráð eru þar takmörkuð hlýtur það að hafa áhrif á verðið sem viðkomandi aðilar eru tilbúnir að greiða fyrir þennan hlut.

Ég velti sömuleiðis fyrir mér: Af hverju getum við ekki tekið aðeins meiri tíma í þetta? Af hverju liggur okkur svona lífið á að selja bankana núna rétt fyrir kosningar? Auðvitað setjum við þessa sölu í það samhengi. Ég veit að þetta er í stjórnarsáttmála en þið hafið beðið nógu lengi með að selja þennan hlut. Á meðan við erum í þeirri stöðu sem við erum núna í og meðan heimshagkerfið er í þeirri stöðu sem það er í er þessi hraði og þessi tímasetning mjög sérkennileg. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að fá sem hæst verð fyrir þennan hlut en að fá líka góða eigendur að bönkunum. Eignarhald í bönkum skiptir svo miklu máli. Við höfum brennt okkur á því að hafa mjög óheppilega eigendur að bönkum og það er ansi stutt síðan það gerðist.