151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni spurninguna, þetta er mikilvæg spurning. Við eigum að spyrja hennar en ég er ekki alveg með einhlítt svar við henni. Ég hef hugsað þetta svolítið og það er rétt að þetta er skuld við eigendur umfram eigið fé. Mér hefur fundist það vanta aðeins í umræðuna að ræða kostnaðinn af því, þegar maður rekur banka, að þjónusta lánsfé og þjónusta eigið fé. Ætli það sé ekki þrisvar sinnum dýrara að þjónusta eigið fé miðað við vexti í dag? Þetta er ekki nákvæmlega reiknað. Þetta er eitt.

Varðandi umfram eigið fé er það auðvitað að hluta til þetta regluverk sem við höfum teiknað upp með varúðarsjónarmið í huga. Ef við ætluðum að beita þeirri taktík, sem okkur þótti ekkert sérstök sem einskiptisaðgerð hér á árum fyrr, að fara inn í bankann og taka þetta út og draga þannig úr viðnámi bankans inn í lengri framtíð, þá er ég ekki viss um að það sé öll þessi fjárhæð sem hv. þingmaður nefndi. Ég horfi aðeins til tilmæla sem Seðlabankinn gaf út, hann hefur sagt að það séu 3–4 milljarðar og svo sé eitthvað eftir umfram það. Ég giska á að það séu svona 15–19 milljarðar og þá verðum við að hafa í huga hver staðan er akkúrat núna. Þetta er ekki nákvæmlega reiknað, þetta er eftir minni og eftir umfjöllun okkar í nefndinni, og það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Ég held hins vegar að hægt sé að greiða þennan arð án þess að ganga á varúðina fyrir liðið ár (Forseti hringir.) og það sem eftir er muni síðan speglast í verði bankans, muni alltaf gera það. Það lækkar ef við tökum þetta út, en ef það er eftir þá hækkar auðvitað verð bankans.