151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurninguna. Aðrir valkostir, það er réttmæt spurning og við eigum auðvitað að greina aðra valkosti. Ég ætla að vísa til stöðuskýrslu Bankasýslunnar frá því í mars sl. Þar var dregið fram að hluta það sem hv. þingmaður er að fjalla um. Þar voru dregnir fram þeir valkostir að selja eða fara í samruna. Samruni er flókið mál og þá erum við mögulega að auka eignarhald ríkisins. Þá erum við kannski að fara gegn þeim markmiðum sem við erum að reyna að uppfylla með því að skrá bankann og fara þessa leið.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum að velta þessu upp. Við eigum að skoða þetta, alveg eins og við eigum að skoða nákvæmlega fórnarkostnaðinn af fjárbindingunni og bera saman við vaxtakjör og vaxtasparnað o.s.frv., eins og hv. þingmaður ræðir. Það var líka rætt um sölu á tilteknum rekstrareiningum, ekkert ósvipað og salan á Borgun eða sjálfbærum rekstrareiningum sem er hægt að taka bara út úr rekstrinum. Það eru ekkert mjög margar eignir tilteknar þar sem möguleiki án þess að það sé flókið. Þegar allt kemur til alls kann okkur að greina á um hversu miklar greiningar við þurfum að fara í umfram þetta.

Ég segi að þetta sé skynsamleg leið. Hún er varfærin. Ég vil minna á allt það ferli sem er að fara í gang sem mun taka hálft ár áður en ákvörðun ráðherra liggur fyrir. Við erum búin að draga fram viðbrögð markaðarins. Ég tek undir það sem við höfum rætt (Forseti hringir.) í hv. fjárlaganefnd, að setja fram einhverjar kröfur um að þegar þessir sex mánuðir fara í hönd (Forseti hringir.) fáum við reglubundið upplýsingar um þetta opna og gagnsæja ferli og (Forseti hringir.) miklar upplýsingar sem munu koma fram um rekstur bankanna og markaðarins.