151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er alltaf gaman að hlusta á hv. þingmann, sérstaklega þegar henni er mikið niðri fyrir og henni virtist vera það í þessari ræðu. Ég hef engu að síður ýmsar spurningar til hv. þingmanns til að geta áttað mig betur á afstöðu flokks hennar til málsins. Hv. þingmaður sagði hér að engri þjóð hefði dottið í hug að selja banka í miðjum heimsfaraldri. Nú er það líka þannig að mjög fáum þjóðum hefur dottið í hug að eiga stærstan hluta af öllu fjármálakerfinu, þannig að því sé til haga haldið. (IngS: Írar, Norðmenn.) — Ekki jafn stóran hlut og íslenska ríkið á í fjármálakerfinu, þó að það sé alveg þekkt að ríkið eigi hlut í einhverjum fjármálafyrirtækjum. En eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á og er fyllilega ljóst á ríkið tvo af þremur viðskiptabönkunum.

Þá langar mig að spyrja, svo ég fái það á hreint hver afstaða flokks hv. þingmanns er: Hvað telur hv. þingmaður eðlilegt að ríkið eigi stóran hlut af fjármálakerfinu okkar og til hve langs tíma? Telur hv. þingmaður að það sé eðlilegt að horfa til þess að ríkið losi um þær eignir sem sitja inni í Íslandsbanka og nýti í eitthvað annað? Eða telur hv. þingmaður eðlilegt að ríkið eigi að fullu Landsbanka og Íslandsbanka til lengri framtíðar? Ef hv. þingmaður telur að á einhverjum tímapunkti sé rétt að losa um eignarhaldið, hvað telur hv. þingmaður að þurfi til? Hvaða tímapunktur kann að vera réttur í þeim efnum?