151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að sá er hér stendur skuli fagna því að stigið verði lítið skref, aðeins lítið skref, í þá átt að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Hin endanlega ákvörðun hefur hins vegar ekki verið tekin, ólíkt því sem sumir þingmenn hér í dag hafa talað. Hún verður ekki tekin fyrr en í vor þegar allur undirbúningur og greinargerðir liggja fyrir.

Um það er ekki deilt að umsvif íslenska ríkisins á fjármálamarkaði eru meiri en í nokkru öðru landi sem við viljum bera okkur saman við. Það er aðeins í Rússlandi, Norður-Kóreu, nokkrum ríkjum Norður-Afríku og Suður-Ameríku sem fyrirferð ríkisins á fjármálamarkaði er jafn mikil eða meiri en hér á Íslandi og þeirri stöðu vilja margir þingmenn greinilega viðhalda.

Í lok þriðja ársfjórðungs á liðnu ári var bókfært eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans um 430 milljarðar kr. Það má ætla að markaðsvirði þessara eignarhluta, ef til þess kæmi, sé 340–400 milljarðar. Það er svona eftir því við hvaða tölur við miðum og hvaða banka við tökum mið af, annars vegar hér og hins vegar á öðrum Norðurlöndum. Upp undir 400 milljarðar af sameiginlegum fjármunum okkar eru sem sagt bundnir í tveimur fjármálafyrirtækjum. Þessu til viðbótar höfum við tekið ákvörðun um að binda tugi milljarða í ýmsum lánasjóðum. Það er vert að hafa í huga, þegar rætt er um að stíga þetta litla skref í að losa um eignarhald, að ríkið hefur í raun ekki riðið mjög feitum hesti frá eignarhaldi á ýmsum lánasjóðum. Hér fyrr í dag kom fram að uppsafnað tap á ÍL-sjóði, sem er gamli íbúðalánasjóðurinn, liggi í kringum 200 milljarða. Þessu til viðbótar var á árum áður, á árunum 2010–2014, búið að setja u.þ.b. 60 milljarða inn í Íbúðalánasjóð.

Áætlun um að selja hluta af eign ríkisins í Íslandsbanka í almennu útboði og skrá hlutabréfin á markað er varfærin í mínum huga. Á sama tíma og ríkissjóður safnar skuldum er skynsamlegt að losa um eignir, ekki síst þær sem ríkið hefur aldrei ætlað sér að eiga til lengri tíma. Það hefur verið rauði þráðurinn hér í öllum umræðum í dag, allt frá fyrri fjármálaráðherrum til núverandi fjármálaráðherra, að ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að ríkið sé meirihlutaeigandi eða alltumlykjandi á íslenskum fjármálamarkaði, þvert á móti. Það má í raun halda því fram að allt frá 2012 a.m.k. hafi allar ríkisstjórnir, hver með sínum hætti, haft það á stefnuskrá sinni að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði. Engu að síður er það gert hér að einhverju sérstöku þrætuepli að tímasetningin sé ekki rétt.

En mér finnst líka að það gleymist að ræða önnur atriði, önnur mikilvæg atriði, þegar kemur að útboði og skráningu hlutabréfa Íslandsbanka á almennan hlutabréfamarkað. Ég hygg að þingmenn hefðu mátt beina aðeins meiri athygli að því hvaða áhrif þetta fyrsta litla skref gæti haft á þróun hlutabréfamarkaðar hér á Íslandi. Ég ætla að halda því fram að ein meginforsenda fyrir framþróun efnahagslífsins hér á Íslandi á komandi árum og áratugum sé öflugur, virkur hlutabréfamarkaður og tryggt gott aðgengi fyrirtækja, starfandi fyrirtækja og ekki síst nýsköpunarfyrirtækja, að áhættufjármagni, hvort heldur það er í formi hlutafjár eða lánsfjár. Um það er ekki hægt að deila að þegar jafn stórt fyrirtæki og Íslandsbanki er skráð á íslenskan hlutabréfamarkað, þá gerir það ekkert annað en að styrkja hlutabréfamarkaðinn.

Við ættum fremur að velta því fyrir okkur hér hvort það er ekki fleira sem við getum gert til að byggja undir hlutabréfamarkaðinn, auka virkni hans og auka þátttöku almennings í atvinnulífinu með beinum kaupum á hlutabréfum. Ég er einn þeirra sem hafa lagt fram frumvarp hér um skattalega hvata til að ýta undir að einstaklingar fjárfesti í skráðum hlutabréfum. Við ættum kannski að hugleiða þetta líka samhliða væntanlegri sölu og skráningu á hlutabréfum Íslandsbanka, hvernig við gætum ýtt undir og létt undir með launafólki að taka með beinum hætti þátt í íslensku atvinnulífi, ekki síst í formi fjárfestinga í skráðum hlutabréfum.

Við sjáum, herra forseti, að áhugi almennings, áhugi einstaklinga, á því að leggja a.m.k. hluta af sparifé sínu í hlutabréf hefur sem betur fer verið að glæðast á undanförnu einu eða tveimur árum. Það hefur tekið töluvert langan tíma að byggja eðlilegan hlutabréfamarkað upp að nýju. Þannig tvöfaldaðist fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga hlutabréf í skráðum fyrirtækjum eða félögum í íslenskri kauphöll á síðasta ári, fór úr 8.000 í 16.000 í lok seinasta árs. Við sjáum líka að virkni hlutabréfamarkaðarins hefur verið að aukast en það er eitt vandamál á íslenskum hlutabréfamarkaði hvað hann hefur verið grunnur. Það er ekki neinum vafa undirorpið að skráning á jafn öflugu og glæsilegu fyrirtæki og Íslandsbanki er mun ekki gera annað en að styrkja hlutabréfamarkaðinn, verðmyndunina, virkni hans, og auka áhuga almennings á því að taka þátt í íslensku atvinnulífi, ekki síst í gegnum skráð hlutabréf. Að þessu leyti er hægt að halda því fram að tímasetning á væntanlegu útboði og skráningu sé bara alveg ágæt.

Það eru merki um það að hlutabréfamarkaður, bæði hér en líka í öðrum löndum, sé að styrkjast. Sögulega lágir vextir eiga auðvitað að öðru óbreyttu að örva eftirspurn eftir hlutabréfum og ýta almennt undir atvinnuvegafjárfestingu. Verðþróun á hlutabréfamörkuðum síðustu mánuði rennir stoðum undir þá fullyrðingu að þetta kunni að vera réttur tími til að stíga þetta litla skref. Það er vert að benda á og hafa í huga í þessu sambandi vel heppnað útboð Icelandair í september sl. þar sem þúsundir einstaklinga tóku þátt og umframeftirspurn eftir þeim bréfum var 85%. Þá voru litlu hluthafarnir ekki skertir, heldur aðeins þeir sem vildu stærri hlut. Það er fyrirmynd sem ég hygg að ríkið, ríkissjóður, fjármálaráðherra, Bankasýslan, eigi að taka sér til fyrirmyndar.

Að verðþróun: Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 26% frá miðju síðasta ári og hefur aldrei verið hærri og hlutabréfaverð þeirra tveggja banka sem skráðir eru hér á Íslandi hefur aldrei verið hærra. Frá miðju síðasta ári hafa hlutabréf Kviku banka hækkað um 79% og bréf Arion banka um 39%. Vísitala fjármálafyrirtækja, banka og tryggingafélaga hefur hækkað um 42% á sama tíma. Sem sagt: Markaðurinn er í uppsveiflu. Sem sagt: Það er góður tími til að stíga þetta fyrsta skref. Nasdaq-vísitala norrænna banka hefur hækkað um 18% frá miðju síðasta ári og Stoxx Europe 600 bankavísitalan um 19%, og svona má lengi telja. Dow Jones bankavísitalan hefur hækkað um hvorki meira né minna en 41% frá lokum júní á liðnu ári. En auðvitað ber að hafa í hug að markaðsaðstæður geta breyst. Þær geta breyst til hins verra. Gefi neikvæð þróun á fjármálamörkuðum tilefni til að ætla að ekki fáist ásættanlegt verð fyrir hlutabréf ríkisins sem boðin verða til kaups, 25–30%, eða hvað það verður, ber fjármálaráðherra að endurskoða þá áætlun og jafnvel hætta við útboðið og skráningu á bréfunum líkt og hann hefur lýst yfir, gerði það hér fyrr í dag.

Herra forseti. Ég stóð í þeirri trú, þeirri barnalegu trú, að ekki væri pólitískur ágreiningur um það að losa ætti um eignarhald ríkisins á fjármálakerfinu, að ágreiningurinn snerist fyrst og fremst um það hvort og þá hversu stóran eignarhlut ríkið ætti að eiga í einum af viðskiptabönkunum og þá hefur yfirleitt verið litið til Landsbankans. Ég er ekki sammála því viðhorfi en ég skil það, ég skil rökin þar að baki. Allar götur frá 2012 hefur sú stefna verið mörkuð að það eigi að losa um eignarhaldið og var eignarhaldið á þeim tíma þó ekki jafn umsvifamikið og það er í dag. Í langtímaáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í ríkisfjármálum 2012–2015 komu fram áform, eins og segir orðrétt, um umtalsverða tekjuöflun af sölu ríkisins á eignarhlutum í félögum og fyrirtækjum, einkum sölu ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Sem sagt árin 2012, 2013, 2014 og 2015 var stefnt að því að það yrði umfangsmikil sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. En núna, níu árum síðar, er sagt, herra forseti: Það er ekki réttur tími í dag.