151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka undir það að við eigum auðvitað alltaf að spyrja okkur: Er farið vel með almannafé? Það er auðvitað grundvallarspurning sem við í þessum sal eigum að spyrja varðandi öll ríkisútgjöld. Hv. þingmaður spyr um gögn og ég skil það alveg, það væri voðalega gott ef við gætum fengið útreikninga á þessu þar sem þetta er reiknað alveg upp, mögulega lægri vaxtagreiðslur ef við seljum þennan hlut núna á móti því hvað við kynnum að fá í arð á næstu árum. En það er auðvitað alltaf einhver spá. (BLG: Sömuleiðis hitt.) Já, sömuleiðis hitt, en það er raunveruleikinn sem við búum við. Það er bara ekki þannig að við getum sett það alveg upp í excel, þess vegna verðum við að meta kosti og galla. Ég var að reyna að segja í ræðu minni áðan að ég tel bankastarfsemi vera áhættustarfsemi. Í nánast öllum rekstri er einhver áhætta. Ég held að það sé jafnvel enn meiri áhætta inn í framtíðina en á síðustu misserum. Jú, við höfum séð mikinn arð koma út úr bönkunum, sem ríkissjóður hefur notið góðs af, en það er reyndar ekki af reglulegri starfsemi banka. Það er vegna þess að enn þá er verið að losa um eignir sem komu í kjölfar hrunsins. Það fæst einfaldlega meira fyrir þær eignir en sem nemur því hlutfalli sem við borguðum fyrir þær kröfur. Ég tel að arðgreiðslur Íslandsbanka til næstu ára verði í engu samræmi við þær arðgreiðslur sem við höfum verið að fá. Ég get ekki sett fingurinn nákvæmlega á hvað það kann að vera, en það eru til einhverjar vangaveltur um það.

Hv. þingmaður spyr: Af hverju eigum við að vera að tala um sölu yfir höfuð? (BLG: Fyrr en við fáum þessi gögn.) Já, fyrr en við fáum þessi gögn. Eins og ég segi þá held ég, hv. þingmaður, að sá veruleiki sem við búum í sé ekki þannig að við getum sett allt upp í excel og reiknað út frá A til Ö. Við höfum einhverjar líkur, við getum farið yfir kosti og galla og metið það, en (Forseti hringir.) grunnútgangspunktinn tel ég auðvitað vera að ríkið eigi ekki að eiga svona stóran hluta í fjármálakerfinu því að í því felst áhætta sem við verðum líka að leggja mat á.