151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Sigríður Á. Andersen erum ekki oft sammála. Reyndar gerist það mjög sjaldan og ég held að hér sé ákveðnum toppi náð, þ.e. að við séum á svo öndverðum meiði að við sameinumst í því, eins og fram kom í máli hv. þingkonu, að almenningur sjálfur eigi að eiga hlut í bankanum. En hér koma fram framúrstefnulegar hugmyndir hjá hv. þingkonu Sigríði Á. Andersen um að almenningur eigi að eiga hlut í bankanum milliliðalaust. Það eru nokkuð sérstakrar hugmyndir. Hún talar fyrir því að við seljum hlut í bankanum í raun og veru til þess að við, almenningur, eignumst hlutinn.

Mig langar til að fá nánari útskýringu á þessari hugmynd þingkonunnar. Hvað á hún til að mynda við með milliliðalaust? Er þá engin stjórn almennings yfir þessum hlut hans í bankanum? Hvers konar milliliðaleysi er hv. þingkona að tala um nákvæmlega?