151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður tala um pólitískan fnyk. (RBB: Popúlískan.) Hún sagði popúlískan, mér heyrðist hún segja pólitískan. En gott og vel, munurinn er auðvitað sá að eins og fyrirkomulagið er í dag þegar ríkið á eitthvert ríkisfyrirtæki hefur almenningur engin tök á stjórn slíks fyrirtækis. Hverjir skipa bankastjórnir? Hverjir skipa stjórnir þessara banka? Hver skipar í Bankasýsluna? Veit einhver hvaða fólk þetta er? Það sem er nú reyndar merkilegt er að með lögum sem Samfylkingin setti í tíð vinstri ríkisstjórnarinnar var fyrirbæri eins og Bankasýslunni falið að leggja fram tillögu um söluna á bönkunum. Þess vegna stöndum við í þessum sporum í dag. Það er af því að Bankasýslan sendi tillögu til hæstv. fjármálaráðherra um sölu á bankanum. Það var ekki hæstv. fjármálaráðherra sem tók ákvörðunina, það var Bankasýslan. Hvaða fólk er það? Hver kaus það fólk til að taka slíka ákvörðun? Af hverju stóð vinstri stjórnin að því árið 2012 að fela einhverri stjórnsýslustofnun þetta vald og taka það af þinginu sjálfu að ákveða bankasölu og ákveða þá tímann á henni úr því að það er svo mikið hjartans mál hjá Samfylkingunni að tímasetningin sé rétt. En nú hefur Alþingi ekki nokkra einustu aðkomu að ákvörðun um tímasetningu á sölu á þessum hlutum. Það er vegna þess að það var framselt í hendurnar á einhverju andlitslausu fólki, einhverri stjórnsýslustofnun. Mér finnst það auðvitað alveg til háborinnar skammar í sjálfu sér að fyrirkomulagið sé svo ólýðræðislegt. Komum bara eignarhlutum á bönkunum beint til almennings sem tekur þátt í stjórn þess almenningshlutafélags. Þetta er ekki flókið og hv. þingmaður þarf ekki að flækja það svona gríðarlega. Þetta er bara eins og hvert annað almenningshlutafélag og því væri stjórnað eins og öllum öðrum almenningshlutafélögum sem erlendis eru mörg hver í eigu milljóna manna.