151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um skýrslu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hér fyrr í dag, miklu fyrr í umræðunni, talaði talsmaður þingflokks okkar í Vinstri grænum, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, og fór í ítarlegu máli yfir sýn okkar og rakti stefnu okkar í þessu máli. Ég ætla ekki að endurtaka það allt saman hér í kvöld, en það eru samt nokkur atriði sem mig langar að stikla á í umræðunni sem mér finnast skipta máli.

Í fyrsta lagi vil ég segja að sú aðgerð sem við ræðum hér, þ.e. að selja u.þ.b. 25% af hlut ríkisins í Íslandsbanka, er í takti við stefnu okkar í VG þar sem við leggjum áherslu á að ríkið verði áfram eigandi Landsbankans. Þetta er alveg í takti við þá stefnu. Við leggjum í sömu stefnu reyndar líka áherslu á að gerð verði skil á milli viðskiptastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi bankans. Í efnahags- og viðskiptanefnd er frumvarp sem lýtur að því máli og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að það mál verði klárað hér í þinginu á næstu dögum. Þá er þetta mál einnig í takti við það sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem einmitt er farið yfir það að eignarhald ríkisins hér á Íslandi á fjármálafyrirtækjum sé það umfangsmesta í Evrópu og að ríkisstjórnin ætli að leita leiða til að draga úr því. Þar segir einnig að ljóst sé þó að ríkissjóður verði áfram leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.

Mér finnst mikilvægt að fara aðeins yfir þetta því að hér hefur svolítið verið talað eins og þessa ákvörðun beri mjög brátt að. Þessi ákvörðun er partur af stefnu sem hefur verið undirbyggð og var m.a. undirbyggð með hvítbók um fjármálakerfið sem gefin var út hér fyrir nokkrum misserum. Þetta skiptir máli í umræðunni vegna þess að þetta er partur af ferli sem rætt hefur verið um hingað til. Talsvert hefur verið rætt um það í dag hvort tímasetningin sé rétt til þess að selja banka. Ég held að við munum ekki vita það fyrr en við látum á það reyna með því að skrá bankann á hlutabréfamarkað og sjá hvort ekki sé örugglega vilji hjá fjárfestum, eins og við höldum að sé, til að kaupa þennan banka. Ef við teljum að verðið sem aðilar eru tilbúnir til að greiða fyrir sé ekki ásættanlegt, sé ekki nógu gott, þá verður auðvitað að skipta um kúrs. Það er hægt að hætta við og það hefur verið talað um það að ef ekki fáist verð sem við teljum vera íslensku samfélagi í hag þá verði ekki af sölunni.

Mér finnst hins vegar mjög eðlilegt að það séu margir sem taki þátt í þessari umræðu, að það sé umræða um þetta úti í samfélaginu og að fólk spyrji spurninga og velti þessu ferli fyrir sér. Sem þjóð erum við auðvitað brennd af sögunni. En sem betur fer höfum við líka lært af henni og komið hér á umgjörð sem er allt önnur, lagaramminn í kringum fjármálakerfið okkar er orðinn allt annar en frá hruni. Með lögum sem sett voru um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er m.a. kveðið á um hlutverk Bankasýslunnar, sem var stofnuð til að skapa meira bil frá stjórnmálunum. Þar er kveðið á um að ráðherra skuli leggja greinargerð fyrir bæði fjárlaganefnd þingsins og efnahags- og viðskiptanefnd og það er m.a. í tengslum við þetta sem við ræðum þessi mál og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gefur þinginu skýrslu hér í dag; við erum að ræða þetta um leið og málin eru til umfjöllunar í þessum nefndum þingsins. Þá kemur einnig fram að Seðlabanki Íslands skuli gefa umsögn og enn fremur kemur málið inn á borð ráðherranefndar um ríkisfjármál áður en endanleg ákvörðun um söluna er tekin.

Frú forseti. Ég tel að hér sé verið að halda áfram með mál sem er vel undirbyggt bæði með lagaramma um það hvernig fjármálakerfið hefur verið styrkt og hvernig það á að starfa en ekki síður með gerð hvítbókar og vinnu sem skrifuð var inn í stjórnarsáttmálann. Ég tel að nú séum við komin að þeim tímapunkti að það eigi að láta reyna á það að selja u.þ.b. 25% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ég fagna umræðunni hér í dag, ég held að hún sé góð og ég held að hún sé mikilvæg fyrir okkur. Hún er mikilvægur partur af því að halda áfram í því að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Á sama tíma vil ég einnig að við höldum áfram og þroskum og dýpkum umræðuna um bankann sem við ætlum að hafa í eigu ríkisins og um það hvernig við viljum að hann starfi til framtíðar. Það er kannski ekki alveg næsta vers í þessu ferli, en ég held að það sé eitt af því sem við ættum að tala um samhliða og halda áfram í framhaldinu.