151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki sagt það í ræðu minni að þessi tímasetning væri einstaklega góð. Hins vegar sagði ég það að sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka væri hluti af ferli sem hefði m.a. verið skrifað inn í stjórnarsáttmálann og við erum að mínu mati í þessu ferli núna. Það vill þannig til að það er alltaf einhver tímasetning. Ég held að við vitum ekki nákvæmlega hvort tímasetningin sé góð fyrr en við erum í rauninni komin lengra inn í söluferlið, þegar við vitum meira um það hver áhuginn er á því að kaupa bankann. Ef niðurstaðan úr því verður sú að við teljum það ekki ásættanlegt fyrir íslenskt samfélag þá hættum við við. Þá erum við komin með niðurstöðu um að tímasetningin sé ekki góð. Það sem ég er hins vegar að leggja áherslu á er að við erum bara í ferli sem þessi ríkisstjórn ákvað að fara í og þess vegna er þetta eðlilegur partur af þeirri vinnu.