151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki óþægilegt við þessar aðstæður, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, hversu mikil tortryggni er úti í samfélaginu gagnvart sölu á banka á þessum óvissutímum. Reyndar hafa kannanir síðastliðin þrjú ár sýnt, þó að enginn heimsfaraldur hafi verið á ferðinni heldur bara venjulegt árferði, að yfir 60% þeirra sem svöruðu þessum könnunum treystu ríkinu best til þess að reka þessa banka áfram, á meðan innan við 20% vildu selja hlutina. Þetta eru kannanir sem voru gerðar áður en heimsfaraldurinn skall á.

Í Fréttablaðinu á vefnum er nú ný könnun þar sem spurt er hversu vel fólk treysti hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til að leiða þessa sölu. Niðurstaðan er sú að 63% treysta honum illa til þess, aðeins 23%, treysta honum vel til þess. Ég held að þetta sé til marks um hvernig almenningur lítur á það sem er að gerast hérna. Ég held að óvissan og staðan bæði í efnahagslífi og atvinnulífi ýti undir þessa tortryggni og vantraust þegar ríkisstjórnin og stjórnarliðar vilja vaða út í þessa sölu á óvissutímum. Ég vil biðja hv. þingmann um að segja að skoðun sína á þessu.