151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég deili að vissu leyti áhyggjum hv. þingmanns af þessu. Í rauninni held ég að hvorki stjórnsýslan né við sem sitjum á Alþingi höfum staðið okkur nægilega vel í að útskýra hvað hefur breyst í starfsumhverfi bankanna á síðustu tíu árum og hvers vegna það er skynsamlegt að skoða þessa leið núna, að losa um eignarhlut ríkisins í öðrum af þessum bönkum, þ.e. í Íslandsbanka. En ég held að það skipti mjög miklu máli að draga fram réttar upplýsingar. Þess vegna skiptir þessi umræða hér í dag mjög miklu máli, að koma því til skila að það eru allt aðrar aðstæður, bæði í starfsumhverfi bankanna og í öllu regluverki sem þeim sem reka banka er sett núna, en voru fyrir 10–15 árum. Ég þekki hins vegar ekki manna best til á þessu sviði þannig að ég sé til þess fallin að útskýra þetta, en ég held að stofnanir ríkisins, stjórnsýslan ætti að fara í ákveðna vinnu á þessu sviði, því að í rauninni er þetta mjög sérhæft í smáatriðum en það er hægt að útskýra þetta þannig að allir skilji muninn sem þarna er á. Auðvitað er liður í þessu að byggja upp traust á því ferli sem fram undan er, að það sé mikið gagnsæi í hverju skrefi sem stigið er og að fjallað sé um það; að fjallað sé um það hér á Alþingi, í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu, eins og raunar hefur verið gert nú á undanförnum tveimur vikum.