151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni andsvarið. Eftir að hafa hlustað á umræðuna hér í dag er ég algerlega sammála því að tímasetning skiptir máli en ég hef samt ekki áttað mig á því í þessari umræðu af hverju hægt er að gefa sér það að þessi tími sé endilega betri eða verri en einhver annar tímapunktur. Það er hluti af ferlinu sem nú er fram undan að komast að því hvort þetta er hentugur tími. Það er margt sem bendir til þess og hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar síðustu daga að þetta geti verið góður tími. Það er þróun á hlutabréfamarkaði. Það getur skipt máli á þessum tímapunkti að fjölga fjárfestingarkostum. Það skiptir auðvitað ríkissjóð máli að geta minnkað skuldir sínar akkúrat á þessum tímapunkti og draga úr vaxtabyrði. Auðvitað þurfa opinberir aðilar alltaf að spyrja sig að því þegar verið er að selja eignir hvort þeir séu að selja mjólkurkúna. En ég hef aldrei skilið af hverju fjármálafyrirtæki ættu að vera að skila opinberum aðilum tekjum.