151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera það sem hæstv. forseti hefur gjarnan gert þegar hann stendur hér í púltinu og þakka fyrir svarið. Þetta var nefnilega mjög gott svar, hv. þingmaður. Kjarni málsins er sá að það er tortryggni. Það er vandinn sem við erum að glíma við. Það er auðvitað líka búið að sá tortryggni. Við erum í allt öðru umhverfi núna heldur en við vorum árið 2000. Ég hef sjálfur sagt að í sjálfu sér hefði ekkert verið betra þó að bankarnir hefðu verið í eigu ríkisins þegar bankahrunið varð 2008. En fólk leggur þetta saman og þess vegna er það tortryggið í dag. Við þurfum núna að sannfæra almenning um að við erum að tala um allt aðra hluti. Við erum að tala um hlutabréf sem við fengum greitt úr samningi við slitabú og við erum bara að breyta þessu hlutafé í peninga. Það er það sem við erum að gera. Og á góðri útlensku: Við erum að „realísera“ þessa eign. Nú er umræðan allt í einu bara komin út í að það sé ekki rétti tíminn, það séu óvissutímar og við vitum ekki hvað sé ásættanlegt verð. (Forseti hringir.) Við vitum alveg hvert verðmætið er og þá vitum við hvað er ásættanlegt verð.