151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svo sem svipað og aðrar ræður hafa verið. Það er auðvitað verið að tortryggja söluna, það er alltaf verið að gera það. Nú eru svo miklar vangaveltur um það af hverju ríkið megi ekki reka þetta eins og aðrir. Ég vil bara benda á að það stóð aldrei til að ríkið ætti Íslandsbanka. Ríkið stofnaði ekki þennan banka. Ríkið tók hlut í honum, ríkið ætlaði ekki að eiga þennan banka. Af hverju er þá svona flókið að selja þennan hlut ef ásættanlegt verð fæst? Ég skil ekki þessi vandamál, þessar vangaveltur, hvort nú sé góður tími o.s.frv., og að talað sé um eitthvert ferli í þessu. Þetta er bara hlutur sem menn ætla að koma í verð. Það stóð aldrei til að við ætluðum að eiga þennan banka. Það stóð aldrei til að ríkið stæði hér með tvo þriðju af öllu bankakerfinu í fanginu. Af hverju eigum við ekki að sameinast um það að fara þessa leið og losa þennan hlut. Það eru sérstaklega góðar aðstæður núna. Það er fjárfestingarþörf. Það er fullt af peningum í umferð sem þurfa að komast í fjárfestingu. Það er samkeppnisatriði að við séum ekki með þetta allt. Það er áhætta að eiga þetta og svo margt annað.

Svo eru menn með vangaveltur um það, segja að við séum brennd af einhverju. Hvenær í Íslandssögunni hefur ríkisrekstur á bönkum borgað sig? Hvenær höfum við haft hag af því? Höfðum við hag af því að eiga Landsbankann og Útvegsbankann á sínum tíma og alla þessa ríkisbanka? Nei, við höfðum engan hag af því. En nú allt í einu finnst mönnum bara alveg sjálfsagt að við tökum alla áhættu af þessu og eigum þetta bara áfram. Losum okkur við þetta, hv. þingmaður.