151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Föstudagurinn kemur verður sögulegur dagur þar sem stórt skref verður stigið í þá átt að tryggja betur öryggi og framtíð jarðarbúa. Þann dag mun nýjasti alþjóðasáttmálinn, samningur um bann við kjarnorkuvopnum, taka gildi með hátíðlegri athöfn í New York. Ég hef áður fjallað um þennan samning úr þessum ræðustól. Aðdragandi hans er að árið 2016 ákvað fjöldinn allur af kjarnorkuvopnalausum ríkjum að reyna nýja nálgun í baráttunni gegn þessum skelfilegu vopnum. Eldri afvopnunarsamningar gerðu ráð fyrir að kjarnorkuveldin myndu með tímanum minnka vopnabúr sín og vinna að útrýmingu þeirra, en hvorki gekk né rak. Þvert á móti hafa einstök ríki og hernaðarbandalagið NATO haft kjarnorkuvopn sem hornstein í hernaðarstefnu sinni. Því miður hefur það verið svo að ýmsum mikilvægum samningum, sem hafa verið eins og vörður á leiðinni við kjarnorkuafvopnun, hefur ekki verið fylgt eftir og þeim jafnvel verið sagt upp, sem gerir þennan samning enn mikilvægari.

Í samræmi við reglur Sameinuðu þjóðanna öðlast þessi nýi sáttmáli gildi að alþjóðalögum þegar 100 dagar eru liðnir frá því að 50. ríkið fullgildir hann. Löndin sem nú þegar hafa fullgilt samninginn eru 51 en 86 lönd hafa tekið fyrra skrefið og undirritað sáttmálann og þeim á bara eftir að fjölga. Þetta er sáttmálinn sem mun útrýma kjarnorkuvopnum í veröldinni og hans verður minnst í framtíðinni sem tímamótaviðburðar. En enn sem komið er streitast kjarnorkuveldin og fylgiríki þeirra á móti. Ísland fylgdi þannig öðrum NATO-ríkjum og sniðgekk ráðstefnuna þar sem sáttmálinn var saminn. (Forseti hringir.) Við eigum að þora að standa á eigin fótum í þessum málum og ég minni á þingsályktunartillögu mína um að Ísland skrifi undir og fullgildi sáttmálann um bann við kjarnorkuvopnum