151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hún er kannski svolítið öðruvísi ræðan sem ég ætla að halda hér undir störfum þingsins. Við þekkjum það jú öll að við höfum verið að hvetja hvert annað og reynt að standa hvert með öðru. Hjarta okkar slær í takt ef eitthvað bjátar á. Þegar þjóðin okkar þarf að taka saman höndum höfum við gert það og við höfum sýnt að við höfum hjarta úr gulli. Nú gengur á samfélagsmiðlum söfnunarátak fyrir ungan mann sem var að missa fjölskyldu sína af slysförum. Ég ætla að hvetja ykkur öll og bara okkur öll til að sýna hvað hjarta okkar er stórt og hvað það er mikið úr gulli. Hjálpum honum, tökum utan um hann. Hann missti konuna sína og litla barnið sitt af hörmulegum slysförum. Ég finn mig bara knúna til að koma hingað upp og nota mér þennan æðsta ræðustól landsins til að hvetja okkur öll til að taka utan um þennan unga mann og sýna úr hverju við erum gerð, að við höfum hjarta úr gulli.