151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Tilraun ýmissa aðila, m.a. þingmanna, til að líkja atvikum úr búsáhaldabyltingunni við árásina á þinghúsið í Bandaríkjunum er klassísk afvegaleiðing. Það sem er vissulega sameiginlegt er að mótmæli áttu sér stað. En hvers vegna voru mótmælin? Í búsáhaldabyltingunni var það hrun fjármálakerfisins og hugmyndafræðin um sjálfsreglun í fjármálakerfinu. Það hrundi með tilheyrandi skaðlegum afleiðingum. Í tilviki árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna voru það ásakanir um kosningasvindl frá valdamesta embætti jarðar, forseta Bandaríkjanna, þar sem sagt var að verið væri að stela lýðræðinu. Að sjálfsögðu á fólk að bregðast við slíkum ásökunum. Það á bregðast við hruni fjármálakerfis og hugmyndafræði um sjálfsreglun og ásökunum um að verið sé að stela lýðræðinu. En ef slíkar ásakanir eru byggðar á lygum þá lendum við í vandræðum. Eru mótmælin skiljanleg? Já, ég myndi vilja sjá mótmæli ef það væri í alvörunni verið að stela lýðræðinu. Auðvitað. Voru sum atvikin réttlætanleg? Auðvitað ekki, en þau eru skiljanleg. Við sjáum hérna vandamálið, hrun pólitískrar hugmyndafræði, það eru lygar valdhafa, það er afvegaleiðing til að fólk horfi ekki á ástæður mótmælanna, afvegaleiðing til að forðast eigin ábyrgð. Þegar valdhafar ljúga að fólki og það grípur til varna er það lyginni að kenna en ekki viðbrögðum mótmælenda.