151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að ræða tilkynningu frá því í gær sem birtist á samráðsgátt stjórnvalda og var frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar lýsir ráðuneytið þeim áformum um að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, svokölluð afglæpavæðing neysluskammta, sem gengur efnislega út á að heimila vörslu takmarkaðs magns ávana- og fíkniefna. Með þessu er verið að taka skref í átt frá refsistefnu í málaflokknum, eins og segir í kynningu ráðherra. Auðvitað vekur þetta orðalag athygli og spurningar, í fyrsta lagi um hvort hugmyndir séu um að ganga enn lengra en þarna er boðað. Að öðru leyti má taka undir að svo sannarlega á ekki að varpa þeim í fangelsi sem eru með neysluskammta. Einnig geta flestir verið sammála um að hér sé um heilbrigðismál að ræða.

Ég velti því fyrir mér hvaða atburðarás sé þarna verið að setja af stað, herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þessu máli frá sjónarhóli löggæslunnar. Frá hennar sjónarmiði mun allt eftirlit með sölu fíkniefna verða erfiðara. Þannig er ég hræddur um að neytendur muni veifa þessum efnum framan í lögreglu sem stendur eftir úrræðalaus. Áttum okkur líka á því að eiturlyfjaneysla mun eiga sér stað fyrir allra augum á almannafæri ef þetta verður að lögum, einnig hér á Austurvelli. Sölumennirnir munu fela sig innan um þetta fólk. Alkunna er að þeir sem byrja í tiltölulega skaðlitlum vímuefnum leiðast gjarnan yfir í stórhættuleg efni. Það hefur haft fælingaráhrif og ég hef áhyggjur af því að hugsanlega muni þessi breyting verða til þess að hömlur margra á að prófa hverfi. Ég tel að það mætti t.d. fara þá leið að milda refsingar í þessum málum. Til að mynda gæti verið mikilvægt skref að refsing þeirra sem lögreglan hefði afskipti af og væru með neysluskammta, kæmi aldrei fram á sakavottorði og yrði eytt úr skrám lögreglu t.d. eftir tvö ár. Aðaláherslan í störfum stjórnvalda (Forseti hringir.) hvað þetta varðar er fræðsla um skaðsemi þessara efna og hvernig þau geta leitt fólk út í alvarlegt heilsuleysi, ekki síst á sviði geðheilbrigðis. Auk þess er alltaf þörf á öflugum forvörnum.