151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Spurt er hvaða árslok sé verið að tala um. Það verður örugglega ekki fyrir árslok 2020, ég sé að við erum búin að missa af þeim vagni. Við erum bara að reyna að vinna þetta eins hratt og við getum. Við þurfum að eiga samstarf við þó nokkuð marga aðila tengda þessu máli og vilji minn stendur til þess að þessi reglusetning komi hreinlega í framhaldi af lagasetningu eða lagabreytingum. Við sjáum hvernig þinginu gengur að vinna með málið. Ég vonast til þess að við getum lokið því á þessu ári, það hefur töluverð vinna verið lögð í þetta mál á undanförnum árum.

Varðandi skilgreininguna á landbúnaðarlandinu þá er það mjög góð vinna sem ég tel löngu tímabært að við komum einhvern veginn í reglusetningu. Varðandi ræktunarlandið og skógræktina þá hef ég heyrt af þessum sjónarmiðum, m.a. frá ágætum Dalvíkingi sem býr austur á landi, og mér finnst full ástæða til að fara yfir þau. Ég hef hvatt skógarbændur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þingið þegar nefndin hefur fengið málið til umfjöllunar. Ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum en það sem við vorum að gera í þessu var að einbeita okkur að þessu ræktarlandi í þágu landbúnaðarnota. Það háttar þannig til að þetta kann að hafa og getur haft einhverjar tengingar við önnur málasvið en þau sem heyra undir það ráðuneyti sem ég veiti forstöðu. Eins og við þekkjum, ég og hv. þingmaður, þá heyrir skógræktin undir umhverfisráðuneytið og það eru mjög skiptar skoðanir meðal margra um hvort ekki sé skynsamlegra að hafa skógrækt í landinu sem landbúnað og þá undir landbúnaðarráðuneytinu. Það er úrlausnarefni sem sömuleiðis þarf að takast á við í framhaldinu.