151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[16:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, á þskj. 625, 418. mál, varðandi svonefnda atvinnu- og byggðakvóta.

Í lögum um stjórn fiskveiða er mælt fyrir um að aflamagn sem svari til 5,3% af leyfilegum heildarafla skuli ekki ráðstafað sem aflamarki heldur komi til tiltekinna þarfa sem greindar eru í lögunum, til að mynda til stuðnings byggðarlögum, til línuívilnunar, til strandveiða og til annarra tímabundinna ráðstafana.

Í apríl 2019 skipaði ég starfshóp undir forsæti Þórodds Bjarnasonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, til að endurskoða meðferð og ráðstöfun þessara heimilda. Í skipunarbréfi starfshópsins var lögð áhersla á að hugað yrði að því hvort þeim markmiðum sem að er stefnt með þessum aflaheimildum hefði verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar. Var þar einnig vísað til stefnumörkunar stjórnvalda í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að vega þurfi og meta fyrirkomulag aflaheimilda, þar með talið strandveiða með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.

Frumvarpið er byggt á tillögum starfshópsins sem greindar eru í skýrslu hans til mín frá 18. febrúar á síðasta ári. Með frumvarpinu er leitast við að skapa skýrari lagalegan grundvöll fyrir meðferð og ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur til ráðstöfunar árlega til atvinnu- og byggðaráðstafana og skilgreina betur tilgang og markmið úthlutunarinnar. Um er að ræða 5,3% allra aflaheimilda íslenskra skipa. Markmiðið er að betur verði tryggt að nýting þessara heimilda stuðli að byggðafestu og nýliðun í greininni og jafnframt að verðmæti þeirra verði sem mest. Því er mikilvægt að sett séu skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangur verði metinn með reglubundnum hætti.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða, sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða, dregin saman í einn kafla í lögunum og skapaður skýrari grundvöllur undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Jafnframt er tilgangur og markmið einstakra aðgerða, sem nánar eru tilgreind í einstökum greinum, dregin saman í einni markmiðsgrein. Þannig verður á einum stað að finna annars vegar ákvæði um markmið þessara aðgerða og hins vegar efnisákvæði um einstakar aðgerðir.

Í öðru lagi er kveðið á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna. Er ætlunin að þau hlutföll byggist á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Jafnframt falli út ákvæði þess efnis að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fram þingsályktunartillögu um fyrirhugaða meðferð og nýtingu umræddra heimilda til næstu sex ára. Felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu frá því sem nú er að því leyti að skiptingin er bundin til lengri tíma, þ.e. til sex ára í stað hvers fiskveiðiárs, en með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika milli ára. Þá tryggir það að festa aflamagnið við hlutföll en ekki tonn að aflamagn sem til ráðstöfunar er á hverju ári fylgi breytingum á heildarafla einstakra tegunda.

Í þriðja lagi verði tryggt að með úthlutun á almennum byggðakvóta sé lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltalsúthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Jafnframt verði lögfest hlutlæg regla sem feli það í sér að slík úthlutun fari eingöngu til byggðarlaga sem hafi færri en 2.000 íbúa en þó með þeim skilyrðum að úthlutun lækki um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000. Felur þetta í sér nokkra breytingu frá núverandi lagaumgjörð og framkvæmd þar sem ráðherra, að höfðu samráði við Byggðastofnun, hefur verið heimilt að ráðstafa aflamagni á grundvelli tiltekinna efnisskilyrða samkvæmt 10. gr. laganna.

Í fjórða lagi verði heimilt að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna varðandi sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar.

Í fimmta lagi er lagt upp með að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að hugtakanotkun um veiðar í tengslum við ferðaþjónustu verði betur skýrð og að um slíkar veiðar verði fjallað í sérstakri grein.

Í sjöunda lagi verði kveðið á um að heimilt verði að semja í tilraunaskyni um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til verkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Þessi heimild verði hins vegar takmörkuð bæði hvað varðar aflamagn og fjölda verkefna. Þá er heimildarákvæði til ráðherra um að útfæra í reglugerð að Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila geti verið falin umsýsla með slíkum verkefnum á grundvelli samninga og mats á árangri.

Í áttunda lagi er lagt til að ráðherra hafi á hverju fiskveiðiári til ráðstöfunar sem svarar til 10,52% af því aflamagni í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til að efla atvinnu og byggðir í varasjóði til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif.

Í níunda lagi falli brott heimild ráðherra í 1. tölulið 1. mgr. 10. gr. og þar með skel- og rækjubætur sem ráðstafað hefur verið undanfarin ár. Í ákvæði til bráðabirgða er í þess stað lagt til að handhöfum skel- og rækjubóta verði úthlutað aflahlutdeild sem nemi samtals 1.482 þorskígildistonnum.

Þá er að lokum lagt til í ákvæði til bráðabirgða að kveðið verði á um að umrædd úthlutun og hlutfallsleg skipting aflaheimilda og aðgerðir þeim tengdar verði endurmetnar í ljósi reynslunnar og eftir atvikum breytt að sex árum liðnum ef þörf krefur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda hv. þingmönnum á skýrslu starfshópsins sem frumvarpið er að stærstu leyti byggt á. Þar er ásamt tillögum að finna áhugaverða samantekt um þróun þessa 5,3% kerfis og m.a. vísað til þess að heildarverðmæti atvinnu- og byggðakvóta voru áætluð á bilinu 5,5–7,5 milljarðar kr. á síðasta fiskveiðiári. Af því leiðir að það eru umtalsverð verðmæti fólgin í þessu kerfi og eðlilegt að slíkur stuðningur hafi skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangurinn metinn með reglubundnum hætti líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Jafnframt vil ég segja að það hafa komið fram margvíslegar hugmyndir á undanförnum árum um breytingar á þessu kerfi. Ég hef hins vegar talið, líkt og hópurinn lagði raunar til, að það sé skynsamlegast að endurskoða þetta kerfi með yfirveguðum hætti enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sjávarbyggðir um allt land.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.