151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að þessar heimildir séu nýttar upp á hverju ári og reynslan og yfirlit yfir nýtingu úr heimildunum sýnir að þær hafa verið nýttar til fulls vegna þess að við höfum m.a. verið að færa á milli potta. Ég ætla bara að nefna tilfærslu úr því sem eftir stóð af línuívilnuninni inn í strandveiðar o.s.frv., þannig að heildarmagnið sem er til ráðstöfunar í 5,3% pottinum hefur verið nýtt á undanförnum árum, sem betur fer. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það getur verið erfitt að veiða nánast upp á ugga, upp á 650 kíló, en ef það eru einhverjar leiðir til þess að búa til sveigjanleika í því án þess að slakað sé á einhverju heildarmagni eða öðru þvíumlíku er það fínt, besta mál. Ég treysti nefndinni til að ræða það atriði. En ég bendi á að það kann að vera ýmsum vandkvæðum bundið hversu mikið svigrúm á að vera fyrir hvern og einn. Það kann að vera erfitt að takmarka það.