151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur telur vindorku einn öflugasta kostinn til framtíðar að mörgu leyti og gríðarlega möguleika í framleiðslu á raforku hér á landi auðvitað með vatnsafli og jarðvarma. Það er ánægjulegt að verið sé að vinna í þessum málum. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að sú vinna hafi verið of hæg og það hefði mátt vinna þetta hraðar vegna þess að þegar heildarmyndin er skoðuð sjást þessir gríðarlegu kostir. Raforkukerfi landsins er með kannski 75% nýtingu í dag. Þeirri nýtingu mætti t.d. ná upp með vindorku og síðan flutningskerfinu, eins og ég kom inn á.

Það sem sá sem hér stendur óskar eftir að fá frekari upplýsingar um frá hæstv. ráðherra eru skoðanir hans á vindorku sem slíkri og möguleikunum sem snúa að henni og síðan áhrifum þessara jaðarsvæða. Miðað við þau kort sem ég hef litið augum sýnist mér að búið sé að minnka töluvert þá möguleika sem eru í vindorkunni, eins og góð og öflug tengivirki þar sem getur verið ákjósanlegt að setja upp slík vindorkuver. Hvernig er farið með það?

Það eru mögulega einnig gríðarlega stórir kostir sem við eigum í vindorkunni. Nýting á vindorkuframleiðslu hér og vindmyllum sýnir fram á að nýtingin er með því mesta sem gerist á heimsvísu, um 50% nýting meðan hún er um 28% á heimsvísu. Þannig að með litlu inngripi og góðum tengingum við tengivirki getur þetta verið mjög ákjósanlegt. Ég held að við verðum að horfa mjög til þess að bæta samkeppnisstöðu landsins í þessu og ég spyr hvort hæstv. ráðherra sé á sömu línu með það.