151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna hér og þessa umræðu sem hefur verið athyglisverð, eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Bergþórs Ólasonar, ég tek undir það. Mér fannst líka mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar þegar hann sagði að ríkisstjórnin hefði brotið lög. Það er mjög athyglisvert að heyra það frá þingmanni sem situr í stjórnarmeirihluta. Ef við lítum aðeins á aðferðafræði við rammaáætlun þá er það nú einu sinni þannig að öll vinna við rammaáætlun miðar að einu marki, að því að flokka virkjunarkosti í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk. Virkjunarkostur er skilgreind framkvæmd til að virkja ákveðinn orkugjafa eins og við þekkjum, vatnsaflið, jarðhitann og vindorkuna, á ákveðnum stað. Þessi aðferðafræði er að einhverju leyti í stöðugri þróun og aðlögun, ef svo má segja.

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hvílir á hugmyndafræðilegum grunni sjálfbærrar þróunar. Um helstu hugtök og vísindi sem máli skipta við faglega vinnu við áætlunina er fjallað á heimasíðunni ramma.is. Þar sem rammaáætlun á að sætta mismunandi sjónarmið er mikilvægt að skoða málin á sem breiðustum grundvelli — ég held að allir séu sammála því — og styðjast þarf við þekkingu úr fjölmörgum greinum raun- og hugvísinda. Þetta er hluti af því sem er nefnt á heimasíðunni ramma.is.

Hvað er sjálfbærni? Jú, lengi vel var sjálfbærni skilgreind á þann hátt að hún væri þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Hér mætti hugsanlega segja að friðun svæðis dragi úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Hugtakið sjálfbærni hefur verið skilgreint í víðari merkingu og með heilsteyptari skilningi á sjálfbærni er lögð áhersla á að efnahagslífið og samfélagið séu hluti af lokuðu kerfi og vöxtur geti ekki farið út fyrir þau endanlegu takmörk sem náttúran setur okkur. Auðlindir eru takmarkaðar og getu umhverfisins til að viðhalda lífsnauðsynlegum ferlum verður því auðveldlega raskað. Hér takast menn að sjálfsögðu á.

Þegar við skoðum markmið um rammaáætlun annars vegar og lög um mat á umhverfisáhrifum hins vegar er nokkuð skýrt að hinn eini raunverulegi munur á markmiðunum felst í orðinu „langtímasjónarmið“, sem er notað um rammann. Rammanum er því ætlað að vera staður þar sem ákvarðanir til langs tíma eru teknar, þ.e. stefnumótunin. Þetta má og þetta má ekki, og svo er spurningin: Hver á að taka þessar ákvarðanir? Þá er það þannig að það eru sérfræðingarnir í Reykjavík og ráðherra. Þessum lögum er eingöngu ætlað að taka þetta stjórnarskrárbundna vald sveitarfélaganna til að fara með sín mál, af þeim. Það verður bara að segjast eins og er og lítur ekki öðruvísi út.

Ef við skoðum 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun segir:

„Verndar- og orkunýtingaráætlun er bindandi við gerð skipulagsáætlana. Sveitarstjórnir skulu samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og orkunýtingaráætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar …“

Þar með er skipulagsvald sveitarfélaganna í reynd komið til Reykjavíkur.

Ef við skoðum 1. gr. þessara laga segir:

„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Ef við skoðum síðan lög um mat á umhverfisáhrifum, frá 2000, þá segir þar:

„Markmið laga þessara er:

a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar,

b. að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar,

c. að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laga þessara,

d. að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði laga þessara og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.“

Rammaáætlun snýst því ekki um að vernda náttúruna — mat á umhverfisáhrifum gerir það — heldur bara um að svokallaðir sérfræðingar hafi ákvörðunarvald um hvenær búið sé að virkja nóg o.s.frv. Spurningin hlýtur að vera: Ef rammaáætlun snýst um náttúruvernd, hvað er það þá sem ekki er að virka í lögum um mat á umhverfisáhrifum? Því hefur aldrei verið svarað. Það liggur hugsanlega að baki að mat á umhverfisáhrifum er þá bara ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir. Það er þá bara rammaáætlun sem getur tekið valdið af þeim. Ofan á þetta þarf ekki að fjölyrða um þann tíma sem þetta ferli tekur, óralangan tíma, sem veldur óhagræði og býr til viðskiptahindranir sem stóru fyrirtækin hafa helst bolmagn til að komast yfir, að ógleymdum ríkisfyrirtækjunum.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að lögin séu ekki aðeins aðför að sveitarfélögunum heldur öllum smærri aðilum sem vilja byggja lífsviðurværi sitt á orkuframleiðslu og að sjálfsögðu líka á þessum stjórnarskrárbundna rétti og ég held að það sé skynsamlegt að leggja þetta ferli niður og halda sig bara við lög um mat á umhverfisáhrifum og laga það sem þarf í þeim efnum.

Þetta er mitt innlegg hér varðandi þessa umræðu. Ég tel að lög um mat á umhverfisáhrifum hafi sannað gildi sitt ágætlega og þetta ferli sem hefur verið komið á laggirnar með rammaáætlun sé kannski bara til þess að flækja hlutina og tefja þá, sem getur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir þá sem hyggjast nýta auðlindir í sínu landi, svo að dæmi sé tekið. Ég vona að þetta mál fái góða og ítarlega umfjöllun í störfum nefndarinnar sem eru fram undan. Þetta er að sjálfsögðu afar mikilvægt mál, við þekkjum það öll, og varðar framtíðina og orkuöryggi þjóðarinnar og búsetuskilyrði í okkar harðbýla landi.