151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér rammaáætlun og ég verð að viðurkenna að fyrir um áratug taldi ég að þetta væri eina leiðin og það skynsamlegasta sem við gætum gert, því að engin skynsemi væri fólgin í því að við værum að rífast um hverja virkjun fyrir sig heldur væri skynsamlegt að setja þær í einn ramma þar sem það væri ákveðið í eitt skipti fyrir öll hvað ætti að virkja og hvað ætti að vernda. Ég held enn þá að það sé virkilega góð hugmynd. En því miður hefur okkur ekki tekist nægjanlega vel upp með þetta. Það sést einna best á því hversu erfitt hefur verið að koma rammanum í gegnum þingið og sitt sýnist hverjum. Ég ætla bara að óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í að fara yfir þessa þingsályktunartillögu og vona innilega að við náum utan um þetta verkefni.

Mig langar að segja á sama tíma að ég er farin að aðhyllast það að við höfum biðflokkinn sem stærstan. Sumir kynnu að segja að þá værum við kannski ekki að leysa nein vandamál heldur ýta þeim inn í framtíðina. En ég er bara sannfærð um að þegar kemur að okkar mikilvægu náttúruauðlindum og hvernig skuli nýta þær sé svo margt sem framtíðarkynslóðir verði bara að fá að gera upp við sig. Við sjáum svo ofboðslega miklar tækniframfarir eiga sér stað sem valda því að við þurfum minni orku til að framleiða ákveðna hluti, á sama tíma og aðrir hlutir kalla á meiri orku, til að mynda í orkuskiptunum og öðru. Þannig að framtíðin er auðvitað mjög óráðin en grunnforsenda okkar er auðvitað að tryggja nægjanlega orku til framtíðar, fyrir það sem við þurfum á að halda. Við erum auðvitað með áætlanir þar að lútandi. Þess vegna væri auðvitað æskilegt að við gætum komið okkur saman um vernd og orkunýtingu. Til að ná utan um það vil ég bara beina því inn í þessa vinnu hvort í því geti falist að fjölga í biðflokknum og leyfa framtíðarkynslóðum að takast á um það sem við getum kannski ekki komið okkur saman um nákvæmlega núna.