151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

lög um sjávarspendýr.

[14:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið og sérstaklega það að fá á hreint hvaða aðilar ráðuneytanna það voru sem ræddu saman. Eðlilega eru starfsmenn þessara tveggja ráðuneyta ekki að fara að vinna utan þess ramma sem ráðuneytinu er settur í skiptingu stjórnarmálefna þannig að ákvörðun um að flytja forræði á sjávarspendýrum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yfir til umhverfis- og auðlindaráðherra þarf að sjálfsögðu að eiga sér stað á hinu pólitíska sviði. Mér hefði þótt eðlilegt, og vísa aftur til orða umhverfisráðherra sem þykir það líka eðlilegt, að hvalir og selir heyri undir villidýralög. Fyrst að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sér það ekki sem eðlilegt næsta skref langar mig að spyrja: Hvað er þá planið með sjávarspendýrin? Eitthvað þarf að bæta þann lagaramma, það dugar ekki að vera með lög utan um hvali frá árinu 1949 þegar (Forseti hringir.) allar aðstæður eru allt aðrar en þær voru þá. Ef ekki á að færa þessar tegundir undir villidýralög (Forseti hringir.) til að meginreglur umhverfisréttarins gildi um þær, hvernig á að tryggja það?