151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:35]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins fyrirkomulagið við kaupin á bóluefninu við hæstv. heilbrigðisráðherra. Það liggur fyrir, eins og hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni hér, að samið hefur verið við fjóra bóluefnaframleiðendur og verið er að semja við þann fimmta. Í minnisblaði sem afhent var hv. velferðarnefnd vegna umræðu í nefndinni um bóluefnakaupin koma fram upplýsingar, sem koma líka fram á heimasíðu ráðuneytisins og á heimasíðunni covid.is, m.a. listi yfir svokallaða forgangshópa, þ.e. hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér að skipta niður bólusetningu. Eru þar tilgreindar tíu hópar. Einhverjir einstaklingar eru tvítaldir í þeim hópum. En af þessum lista má ráða, a.m.k. finnst mér það blasa við, að þetta sé u.þ.b. 90.000 manns sem ríður á að fái bólusetningu. Er ég þá að vísa til eldri borgara og viðkvæmra og framlínustarfsmanna. Þessi hópur telur um 90.000 manns, sem blasir að mínu mati við að bólusetja. Í því ljósi finnst mér skjóta svolítið skökku við að þegar bóluefnakaupin hófust í október var keypt bóluefni frá AstraZeneca fyrir reyndar 114.000 manns, að þá hafi ekki verið gerðir samningar við alla hina bóluefnaframleiðendurna um skammta fyrir a.m.k. 90.000 manns. Samningar við aðra voru ekki gerðir fyrr en í desember og var það reyndar bara við bóluefnaframleiðandann Janssen sem gert var ráð fyrir skömmtum fyrir fleiri en 90.000 manns.

Meginspurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er þessi: Í ljósi þeirrar forgangsröðunar og hversu áríðandi það er að bólusetja þennan hóp, sem telur ekki meira en 90.000 manns, af hverju var ekki hugað að því að gera samninga við fleiri bóluefnaframleiðendur um skammta fyrir a.m.k. 90.000 manns? Það vekur t.d. athygli mína að samningur við Pfizer var gerður í desember og var tvískiptur. Fyrst var gerður samningur 9. desember og ekki einu sinni sá samningur náði fyrir 90.000 manns heldur var þá bætt við samninginn 30. desember, þannig að við höfum núna samning við Pfizer um bóluefni fyrir 90.000 manns. Ég nefni þetta sérstaklega í því ljósi að það var fjárveiting á árinu í fyrra og er á þessu ári sem nemur ríflega 1,7 milljörðum vegna bóluefnakaupa. Kostnaður vegna faraldursins hér á landi er um 1 milljarður kr. á dag, það er bara beinn kostnaður og trúlega er hann miklu hærri en það.

Þannig að mér finnst blasa við að skortur á fjárheimild geti ekki verið svarið við þeirri spurningu sem ég legg hér fram:

Hví var ekki ráðist í það að semja við alla þessa bóluefnaframleiðendur fyrir meira en 90.000 manns? Einkum og sér í lagi vegna þess að, eins og nú kemur í ljós, einhver áhöld eru uppi um hvort bóluefnið frá AstraZeneca dugi tilteknum hópum eða ekki. Það er auðvitað ósannað og það eiga eftir að koma fleiri álitaefni. En mér hefði fundist það eðlilegt að tryggja sig með verulegum hætti hjá öllum þeim sem í þessum viðskiptum standa.