151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta kjarnaatriði. Það er sannarlega þannig að umræðan hér innan lands og víðast hvar, hvort sem við tölum um Evrópu eða einstök ríki, hefur fyrst og fremst byggt á þeim grunni að hver sé sjálfum sér næstur. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa þó haldið okkur mjög við efnið í því að ítreka mikilvægi þess að við gætum líka að því að fátækustu ríki heims standa ekki í sömu stöðu og eru ekki jafn örugg við borðið þegar kemur að ráðstöfun bóluefna. Vegna þessa hefur verið efnt til samstarfs á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem við erum aðilar að og höfum lagt okkar af mörkum þar, auk þess sem það liggur fyrir að ef sú staða kemur upp að við erum með bóluefni sem er umfram það sem ráðstafað verður hér innan lands þá verður það efni gefið annað. Það liggur fyrir.

En ég tek undir ábendingar hv. þingmanns að því er varðar þær stóru siðferðilegu spurningar sem núna eru uppi, og eru ekki bara uppi að því er varðar glímuna við Covid-19 og aðgengi að bóluefni almennt, heldur verður umræðan svo afhjúpandi einmitt núna í þeirri stöðu hversu gæðum jarðar er misskipt. Það er náttúrlega veruleikinn sem afhjúpast núna. Það er ekki nýtt. Þannig hefur það verið allt of lengi og um árabil að sumar þjóðir eru ríkar, vel menntaðar og hafa mikinn aðgang að þekkingu, upplýsingum, heilbrigðisgögnum, menntun o.s.frv. og sú misskipting er kannski eitt af stærstu viðfangsefnum þessarar aldar.