151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[16:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er bæði gaman og ánægjulegt og væntanlega líka gagnlegt að fá tækifæri hér til að taka aðeins þessa umræðu saman. Ég tel að það sé mikilvægt að fá tækifæri til að eiga samtal við Alþingi og hef ávallt tekið þeim óskum vel þegar eftir því hefur verið leitað. Ég vil ítreka það að hv. þingmenn geta fylgst með uppfærðum upplýsingum á hverjum degi á vefnum boluefni.is og jafnframt ýmiss konar upplýsingum á covid.is. Um leið vil ég hvetja okkur öll til dáða í því að vera þátttakendur í viðspyrnunni og vera þátttakendur í því að horfa fram á veginn, vegna þess að ég held að það sé leiðin fyrir okkur; að stilla saman strengi, sýna þolgæði og úthald og jafnframt að byggja á styrkleikum þessa samfélags sem við erum svo heppin að vera partur af.