151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðuna sem einkenndist af þeirri yfirvegun og sanngirni sem hann er kunnur fyrir. Í umræðum hér lét ég orð falla á þann veg að maður hefði kosið að stigin væru stærri og veigameiri skref gagnvart verðtryggingunni. Ég ætla að gera húsnæðisliðinn sérstaklega að umræðuefni í þessu andsvari. Það kom fram í svari ráðherra, við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir kannski tveimur árum eða svo, að á árabilinu 2013–2017 lögðust verðbætur ofan á íbúðalán, þ.e. lán með veði í íbúðarhúsnæði, og ef einungis hefði verið tekið tillit til almennra verðbreytinga, eins og við sjáum í búðum og annað af því tagi, hefðu þessar verðbætur numið 15 milljörðum, en vegna húsnæðisliðarins eins lögðust alls 133 milljarðar ofan á þessi íbúðalán. Það þýðir að húsnæðisliðurinn einn olli eignatilfærslu, frá heimilum til fjármálastofnana, upp á 113 milljarða. Þetta eru svo stórar tölur að þær eru náttúrlega af stjarnfræðilegum víddum. Viðbrögð flokks hv. þingmanns voru að kalla eftir skýrslu um húsnæðisliðinn. (Forseti hringir.) Hún hefur legið hér óbætt hjá garði um nokkurt skeið og ég ætlaði kannski að spyrja hvaða ályktun hv. þingmaður dregur af þessum staðreyndum, þ.e. annars vegar (Forseti hringir.) af svarinu um þessa eignatilfærslu, og hins vegar af þessari skýrslu.