151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:53]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég verð að viðurkenna að ég sé þetta ekki alveg ganga upp, kannski af þeim ástæðum að þar sem er líklegast að svona gjald verði nýtt er í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, í þéttbýlinu, þar sem umferðartafir eru meiri og mesta bílanotkunin er. Það er svo mikill hreyfanleiki á milli sveitarfélaga þannig að mögulega væru bara sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu að borga umhverfisgjald en aðrir ekki. En félagar hv. þingmanns í Vinstri grænum tala mikið um mikilvægi náttúrunnar og loftslagsins sem ég geri líka, og að við séum að fá fullt af ferðamönnum og í kringum ferðamenn sé framtíðaratvinnuvegur okkar og þess vegna eigi að vernda náttúruna og ég tek alveg undir það. En ferðamenn ferðast allir um á bílaleigubílum. Fyrir að verða tíu árum upplýsti einn góður maður mig um að það væru 25 bílaleigur skráðar í Keflavík, bara þar. Það er fyrir utan stærstu bílaleigurnar. Mikið af þeim bílum, og það er kannski ástæðan fyrir því að hvergi er meiri notkun bílaleigubíla en hér, eru keyrðir af ferðamönnunum. Við myndum ekki ná þessu gjaldi af þeim. Þá værum við að setja gjald á borgarana út af notkun annarra en þeirra sjálfra á einkabílnum, annarra en íbúa þess sveitarfélags. Það er eitt.

Svo er önnur spurning sem mig langar að koma með í lokin sem tengist þessu aðeins. Telur hv. þingmaður það ekki umhverfisvænt, þótt bílaumferð dragist ekki saman, ef allir bílarnir yrðu rafmagnsbílar eða vetnisbílar þannig að þeir yrðu umhverfisvænir? Er það ekki umhverfisvænt?