151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:56]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir andsvarið. Ég ætla að svara síðari spurningunni fyrst af því að þar þekkir þingmaðurinn náttúrlega svarið. Auðvitað er það umhverfisvænna að allir bílar gangi fyrir rafmagni en að allir bílar gangi fyrir kolefniseldsneyti. Það er t.d. eitt af því sem mætti auðveldlega skoða í þessu sambandi, hvort gjaldtaka sveitarfélaganna gæti verið mismunandi eftir því hvernig bíllinn væri. Það tengir mann aftur inn á það sem ég og hv. þingmaður höfum áreiðanlega einhvern tíma rætt áður og það er að við vitum náttúrlega að gjaldtaka vegna bílanotkunar, til að halda við vegunum og til þess að halda við vegakerfinu, mun breytast smátt og smátt þegar við förum yfir í umhverfisvænni orkugjafa og höfum ekki lengur kolefnisgjaldið, bensíngjöldin og olíugjöldin til að halda uppi vegunum okkar.

Varðandi ferðamennina og bílaleigurnar þá hlyti það að vera eðlilegur fylgifiskur þessa að bílaleigurnar yrðu rukkaðar um þessi gjöld, þar væru bílarnir skráðir. Eðli málsins samkvæmt myndi það væntanlega birtast að einhverju leyti í gjaldtökunni fyrir útleigu bílanna. Ég tel a.m.k. ekki óeðlilegt að lögaðilar væru þarna inni alveg eins og aðrir. En þetta er bara eitt af því sem er svo mikilvægt að skoða og það er svo mikilvægt að reyna að átta sig á því hvernig er hægt að beita þessum skattalegu hvötum, skulum við kalla það, til að beina neyslumynstri fólks í þá átt að þjóna umhverfinu betur en við gerum í dag. Ég fagna áhuga þingmannsins á því að reyna að finna slíkar leiðir og slípa tillöguna til, ég hlýt að fagna því.