151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[22:05]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Sorphirðugjöldin yrðu náttúrlega ekki hluti af þessu þar sem þegar er heimild til að innheimta sorphirðugjöld. Þau eru innheimt með fasteignagjöldunum. Það leiðir mig að því hvernig væri eðlilegast að innheimta þetta og það væri líklegast með fasteignagjöldunum vegna þess að það er kerfi sem sveitarfélögin nota nú þegar. Ég vil taka fram að þetta gæti eins verið afsláttur til þeirra sem eiga kannski bara einn bíl eins og aukið gjald til þeirra sem eiga þrjá, sem dæmi. Já, ég geri ráð fyrir að þetta væri breytilegt eftir svæðum, enda er hugmyndin hluti af því að valdefla sveitarfélögin til að geta sjálf ákveðið með hvaða hætti þau afla sér tekna.

Þingmaðurinn spurði hvort hann ætti að borga fyrir að leggja við húsið heima hjá sér. Nei, ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi, eins og flestir íbúar þessa lands, greitt gatnagerðargjöld þannig að ekki er þörf á því. Það er ekki kostnaðurinn sem við erum að tala um, hann er þegar greiddur. En ef t.d. þingmaðurinn byggi einhvers staðar þar sem sveitarfélagið mæti það svo að lítil eða engin þörf væri á nagladekkjanotkun, eins og víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu, gæti hann þurft að greiða gjald fyrir það að velja að vera með nagladekk á bílnum sínum. Það er ein leiðin. Sennilega yrði alltaf sú leið farin að sett yrði sérstakt gjald á naglana. En hver sem leiðin yrði þá er þetta tæki fyrir sveitarfélögin til að geta stýrt umhverfismálum sínum með nákvæmari hætti en þau gera í dag og notað gjaldtökur eða ívilnanir til þess að hvetja íbúana til umhverfisvænni lífshátta.