151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann talar um jafnréttismálin, að þau séu mikilvæg fyrir samfélag okkar og ég tek undir það. Ég gleymdi að nefna það í ræðu minni áðan að þetta er orðin útflutningsvara okkar Íslendinga. Það er ekki bara að við stöndum framarlega í þeim samanburði sem gerður er árlega heldur höfum við notað þetta í þróunaraðstoð okkar. Þegar erlendir þingmenn koma hingað að hitta íslenska þingmenn, og hef ég tekið á móti nokkrum slíkum sveitum, þá eru tvö mál sem ég hef verið spurð sérstaklega út í og allir þessir hópar hafa viljað ræða við mig. Það eru jafnréttismál og norðurslóðamál, sem ég held að séu tvö af okkar mikilvægustu málum þegar kemur að útflutningi og þróunaraðstoð.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég telji að þetta þvingunarúrræði sem sektarákvæðið væri myndi draga úr meðbyr sem lögin hefðu. Nei. Ég skal svara því hreint út, ég óttast það ekki. Ég veit reyndar ekki hvort þessi lög hafi haft rosalega mikinn meðbyr, ég velti því fyrir mér. Mér hefur fundist umræðan um þetta mál frá því að það kom inn á þing bera þess merki að ekki sé endilega rosalega mikill meðbyr með lögunum þó að í orði kveðnu segi auðvitað allir að þeir styðji jafnrétti. Það er enginn sem segir: Nei, ég styð ekki jafnrétti. Við tölum líka um, eins og hv. þingmaður kom inn á, að fólk vilji velja þann sem hæfastur er og ég tek undir það. Ég held að ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að konur geti verið alveg jafn hæfar og karlar þegar kemur að því að velja fólk í stjórnir fyrirtækja eða í stjórnendahópinn. Það er kannski það sem ég er bara orðin þreytt á. Hv. þingmaður talaði um, að við séum jafnt og þétt að feta þetta í sátt og samlyndi (Forseti hringir.) en því miður er það bara þannig að þetta „feta eitthvað“ gengur bara of hægt.