151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir hennar innlegg. Ég verð að viðurkenna að mér þykir frumvarpið ekki mjög sjálfstæðislegt en hv. þingmaður reyndi að fara yfir það í ræðu sinni og í svörum við fyrra andsvari hvernig hún útskýrir áhuga sinn á málinu og þeim tillögum sem í því felast.

Ég er með nokkrar spurningar til þingmannsins. Í fyrsta lagi: Hér er í raun fjallað um öll félagaformin, þetta eru lög um samvinnufélög, lög um einkahlutafélög, lög um hlutafélög og lög um sameignarfélög. Gerir hv. þingmaður engan greinarmun á einkahlutafélögum í þessu samhengi og síðan opinberum hlutafélögum? Telur hv. þingmaður að sams konar reglur skuli ná yfir einkahlutafélög? Frumvarpið felur það vissulega í sér en mig langar kannski að hv. þingmaður fari dýpra í rökstuðninginn fyrir því að nálgast þetta með þeim hætti að einkahlutafélög með 50 starfsmenn eða fleiri falli þarna undir. Mig langar jafnframt til að spyrja hv. þingmann hvort að hennar mati komi til greina að fella niður lagaklásúluna sem nú er ætlun flutningsmanna að setja sektarákvæði við í stað þess að leggja til sektarákvæði núna. Var það valkostur þegar hv. þingmaður ákvað hvort hún yrði meðflutningsmaður að þessu máli og fór fram einhver greining á því hvort fella ætti ákvæðið niður? (Forseti hringir.) Eða var það augljóst allan tímann að setja inn sektarákvæði?