151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er akkúrat málið. Hvar ætla menn að segja stopp þegar þeir eru búnir að búa til þessi nýju viðmið fyrir okkur, mig og hv. þingmann og líklega alla sem a.m.k. eru í þessum sal núna, sem lítum svo á að allir einstaklingar séu jafn réttháir, sama af hvoru kyninu menn eru eða hversu gamlir, hvar þeir búa o.s.frv.? Það er mjög undarlegt eða erfitt að ætla að sætta sig við kerfi sem flokkar fólk fyrst og fremst eftir meðfæddum eiginleikum eða einhverju öðru sem hægt er að aðgreina fólk með og raða svo saman í hvert herbergi fólki með ólíka eiginleika. Það er best að hinir ólíku eiginleikar okkar nýtist fyrirtækjum en það sé gert af þeim sem eiga fyrirtækin og eiga hagsmunir þar undir. Það er þeirra að nýta ólíka eiginleika ólíks fólks, ella verður niðurstaðan skaðleg fyrir fyrirtæki.

Við hv. þm. Brynjar Níelsson vorum aðeins að velta vöngum með það áðan hvar þetta muni enda. Ég hallast að því að eina leiðin til þess að fylgja þessu til enda og klára þetta sé að ríkið komi á hæfisnefnd ríkisins þar sem eigendur fyrirtækja geta sent erindi með ósk um að fá að komast kannski sjálfir í stjórn eigin fyrirtækis eða tilnefnt einhverja aðra. Og svo setjist nefndin, og hún þarf að vera vel mönnuð, þetta verður heilmikil vinna, yfir heildarmyndina og skoði hvernig fólk skiptist í stjórnum allra fyrirtækja landsins og geti þá metið ef það vantar mann frá tilteknum landshluta ef það hallar á (Forseti hringir.) ákveðinn landshluta, hallar á ákveðið kyn eða ákveðið aldursbil, og geti raðað þessu niður. Maður sér þetta fyrir sér, gríðarlega stóran vegg inni á þessari stofnun (Forseti hringir.) með ljósum, þar sem hver litur táknar ólík persónuleg einkenni. Svo hamast menn í þessu (Forseti hringir.) og senda erindi til fyrirtækisins um hvort það megi skipa hinn tilnefnda. Og ef ekki þá getur (Forseti hringir.) stofnunin sjálf séð um að finna hinn tilvalda fulltrúa.