151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður hefur auðvitað langa þingreynslu og hv. þingmaður er mjög vel læs á alls konar gögn og efni sem berast þingnefndum. Það stendur þannig á að þegar háskólaprófessor tjáir sig, eins og prófessor Stefán Már Stefánsson gerir, þá er það gert með varfærnislegum hætti. Hlutunum er pínulítið pakkað inn, ef ég má leyfa mér að segja það. Það liggja fyrir frá honum alger varnaðarorð varðandi stjórnarskrána.

Ég ætlaði líka gera eina athugasemd og spyrja hv. þingmann: Hver var það á fyrri stigum sem gaf í skyn að ekki fyndust hæfar konur til setu í stjórnum atvinnufyrirtækja? Ég átta mig ekki á því. Síðan vil ég bara segja við hv. þingmann: Finnst henni smekklegt að segja að hér hafi eintómir karlar tekið þátt í umræðunni? (Forseti hringir.) Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði það reyndar líka og ég furða mig á því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) skuli ekki hafa blandað sér fyrr í þessa umræðu. Hvað með þær ágætu konur sem eru meðflutningsmenn að frumvarpinu? (Forseti hringir.) Er við okkur sem tókum þátt í þessari umræðu (Forseti hringir.) að sakast að ekki skyldu fleiri konur taka þátt í henni þar á meðal úr hópi flutningsmanna?