151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við létum einmitt skoða þessi mál varðandi lög um kynrænt sjálfræði og létum það fara í skoðun til skrifstofu jafnréttismála. Þar var bent á að réttara væri að breyta orðalagi frumvarpsins í samræmi við orðalag í frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Þar er í 1. mgr. 28. gr. lagt til að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélags skuli gæta þess að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast og ekki lægra en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Það var litið á það að verið væri að tala um stöðu kvenna og að lágmarkshlutfall kvenna yrði að vera tryggt og ekki væri hægt að horfa til þessa hlutlausa kyns varðandi ráð og stjórnir á vegum hins opinbera, að í þessu þyrfti að tryggja lágmarkshlutfall kvenna.