151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að gera athugasemdir við þetta svar hv. þingmanns. Þegar umræðu var frestað hér hinn 7. desember sl., kl. 19.52 var hæstv. forseti Steingrímur J. Sigfússon í pontu. Þegar málinu var frestað segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„Umræðu um 7. dagskrármálið er nú frestað og hefur framsögumaður málsins upplýst mig um að heppilegast sé að það sé kallað aftur til nefndarinnar á þessu stigi og verður það þá gert. Umræðunni er frestað og málið gengur aftur til hv. atvinnuveganefndar.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er til á upptöku hér úr þingsalnum. Nú er hv. þingmaður formaður téðrar nefndar og fyrsti flutningsmaður þessa máls og framsögumaður nefndarálits. Svar hv. þingmanns í fyrra andsvari stenst enga skoðun.