151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða Íslands á lista yfir spillingu.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að dæmin sem hv. þingmaður nefnir hér því til stuðnings að það þurfi að hafa miklar áhyggjur af spillingu á Íslandi, sé nú heldur léttvæg. Að kalla það mál spillingu í Landsréttarmálinu þegar öll gögn eru opin, þegar Alþingi kemur að málinu og tekur síðustu ákvörðunina, þegar embættismenn mæta fyrir nefndasvið og færa rök fyrir tillögu ráðherrans, þegar hér í þingsal eru greidd atkvæði fyrir opnum tjöldum. Að kalla afgreiðslu slíkra mála spillingu er auðvitað með miklum ólíkindum.

Hérna skiptir dálítið máli hvort menn kjósa að líta svo á að glasið sé hálftómt eða að það sé hálffullt. Þegar við skoðum þessa niðurstöðu með aðeins jákvæðara hugarfari en hv. þingmanni virðist vera tamt að gera, þá má sjá að Ísland skipar sér í flokk með þeim þjóðum í heiminum þar sem spilling er minnst. En vilji menn hins vegar leggja einhverja aðra mælistiku á það mál og skoða í hvaða hópi við erum ekki er jú hægt að draga það fram að á þennan mælikvarða, sem er ekkert algildur mælikvarði eða fullkominn á nokkurn hátt, skorum við ekki jafn hátt og Norðurlöndin.

Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við getum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari, og það sama á við um GRECO-úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum, heldur tilfinningin fyrir því að einhvers staðar grasseri spilling, einhver svona óljós tilfinning. Oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu, að hún versnar.