151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að við fáum sem mest út úr auðlindum okkar. Þar sem við ákváðum að fara í þau umfangsmiklu inngrip sem virkjanir eru þá hljótum við að vilja að það skili okkur sem allra mestum ávinningi og virði. Sem betur fer hefur stefnan breyst hvað það varðar því að allt of lengi höfum við fylgt þeirri stefnu, eða fylgdum, að stór hluti auðlindanýtingar og þess arðs sem við fengum fyrir hana væri tengdur framleiðsluverði einnar vöru. Þetta fær falleinkunn í öllum prófum hagfræðinnar eða auðlindanýtingarinnar, eða hvar sem okkur ber niður.

Áhugi á grænni orku er að aukast og hann mun aukast enn meira. Við búum við ótrúlega mikil tækifæri sem þjóð í því samhengi. Viðfangsefni okkar hlýtur að vera að tryggja græna uppbyggingu, starfsemi sem hjálpar okkur að vinna að loftslagsmarkmiðum okkar, en er um leið tilbúin að greiða sanngjarnt verð. Græn uppbygging er atvinnuskapandi. Og meira að segja vestur í Bandaríkjunum, þar sem ekki hefur endilega verið forysta í þessum málum í gegnum tíðina, hefur fólk áttað sig á því að græn uppbygging er sú uppbygging sem skapa mun flest störf fyrir okkur sem opnum augun fyrir nútímanum.

Þetta er markmiðið: Hvernig fáum við sem mest út úr okkar auðlindum? Það er með grænni uppbyggingu.