151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá velferðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, sem hefur verið til umfjöllunar í nefndinni. Mál þetta hefur fengið að mínu viti býsna góða umfjöllun í nefndinni og margir komið að því máli. Það er gleðilegt frá því að segja að allir nefndarmenn hafa lagt gott eitt til í þetta nefndarálit og þannig tryggt að það sé full samstaða um það í nefndinni í öllum meginatriðum og allir nefndarmenn með á álitinu.

Þetta er mikilvægt, herra forseti, sérstaklega þegar horft er til þess að ráðstafanir í sóttvarnamálum og sú vinna sem hefur verið unnin í tengslum við heimsfaraldur vegna kórónuveiru að undanförnu skipta miklu máli. Þá er vel að þingnefndin taki sér þann tíma sem þarf og líka að nefndarmenn vinni saman að því að finna þær lendingar sem þarf til að málið verði eins vel úr garði gert og kostur er og sem breiðust samstaða náist um það í þinginu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi sóttvarnalögum með það að markmiði að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir, m.a. á grundvelli fenginnar reynslu af yfirstandandi heimsfaraldri kórónuveiru.

Tilefni frumvarpsins er að skýra þessi lög og lagaheimildir og byggir á tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra sem falið var að semja drög að frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum þar sem horft yrði sérstaklega til ákvæða laganna sem fjalla um opinberar sóttvarnaráðstafanir og valdheimildir stjórnvalda

Með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2020, óskaði forsætisráðherra eftir því að dr. Páll Hreinsson tæki saman álitsgerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Í framhaldi af því skilaði Páll skýrslu til forsætisráðherra og starfshópurinn sem ég nefndi áður studdist að miklu leyti við hana. Í álitsgerð dr. Páls var fjallað um fyrrnefndar valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Jafnframt er þar tekið mið af samspili við valdheimildir lögreglu og annarra yfirvalda til að framfylgja slíkum ráðstöfunum.

Frumvarpinu er, eins og áður segir, ætlað að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu nú og að skerpa á þeim heimildum sem heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa til að bregðast við og draga úr útbreiðslu smitsjúkdóma líkt og Covid-19.

Við umfjöllun um málið hefur nefndinni borist fjöldi umsagna og hún fengið á sinn fund sérfræðinga í lækningum og á heilbrigðissviði, lögfræðinga með sérþekkingu á stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti auk hagsmunaaðila.

Það er rétt að taka fram strax í upphafi að við erum að fjalla um tilteknar breytingar á sóttvarnalögum en hér er ekki á ferðinni sú heildarendurskoðun á sóttvarnalögum sem hefur verið kallað eftir og ég mun koma aðeins inn á það síðar í ræðu minni, herra forseti. Þetta kemur fram í næsta kafla í nefndarálitinu. Það kom fram á fundum nefndarinnar að ýmis atriði þyrfti að skýra betur og seinna í álitinu kemur líka fram að það eru viss atriði sem kannski þarf sérstaklega að horfa til við heildarendurskoðun. Nefndin tekur undir þau sjónarmið en bendir jafnframt á að í miðjum heimsfaraldri sé kannski eðlilegra að gera þær breytingar á sóttvarnalögum sem teljast vera nauðsynlegar til að skýra valdheimildir en síðan sé einmitt hægt að nýta sér reynsluna af faraldrinum og af því, eins og sagt hefur verið, að keyra sóttvarnalögin einu sinni áður en við förum í heildarendurskoðun á þeim. Það er það sem við ætlum að gera. Nefndin ítrekar þó að það sé mikilvægt að þessi heildarendurskoðun fari af stað sem fyrst, menn vindi sér í þetta verkefni sem fyrst og dragi það ekki of lengi. Það séu viss atriði sem þegar blasi við að þurfi endurskoðunar við og það er hægt að fara að vinna í þeim nú þegar, þó svo það sé kannski ekki hægt að gera sér fulla grein fyrir öllum atriðum akkúrat núna en mörg liggja fyrir.

Það fór mikil umræða fram í nefndinni um gildi stjórnsýslulaga og hvernig sóttvarnalög tengjast þeim lögum og tengjast í raun meginréttindum sem við sem borgarar í þessu landi lítum á að við höfum. Þessi umræða er mjög mikilvæg, einkum og sér í lagi þegar horft er til þess að sóttvarnalög takmarka á vissan hátt réttindi, vissulega tímabundið yfirleitt, sem almennir borgarar líta á sem sjálfsögð. Þess vegna er svo mikilvægt að þau séu skoðuð í þessu samhengi. Það er full ástæða til að þakka sérstaklega fyrir þá umræðu sem fór fram um þessi efni í nefndinni. Þetta dýpkaði umræðuna og hefur örugglega hjálpað fleiri nefndarmönnum en mér að líta málið í svolítið víðara samhengi. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt.

Í 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Er m.a. lagt til að í 5. mgr. greinarinnar verði kveðið á um að áður en stjórnvaldsákvörðun um aðgerð er tekin skuli þess freistað að ná samstarfi við hlutaðeigandi aðila um viðeigandi og hóflegar aðgerðir. Náist slíkt samstarf ekki taki sóttvarnalæknir stjórnvaldsákvörðun að undangenginni málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Lagt er til að í 6. mgr. greinarinnar verði kveðið á um að sóttvarnalæknir geti tekið stjórnvaldsákvörðun munnlega telji hann að töf á afgreiðslu máls sé hættuleg.

Í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins er lagt til að tekinn verði af vafi um það í lagatextanum í hvaða tilvikum stjórnsýslulögin eigi við og hvenær ekki. Stjórnvöldum ber almennt að fylgja stjórnsýslulögum óháð því hvort stjórnvaldsákvörðun er skrifleg eða munnleg. Því er skynsamlegt að kveða á um í lagatextanum hvaða málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga skuli gilda, og að hvaða marki, þegar sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um einangrun eða sóttkví og töf á afgreiðslu máls er metin hættuleg. Augljóst er að slíka ákvörðun kann að þurfa að taka með afar skjótum hætti og ólíklegt að raunhæft verði að fylgja öllum reglum stjórnsýslulaga, svo sem reglum um rannsókn og andmælarétt.

Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneytinu er á það bent að samkvæmt orðalagi 12. gr. sé ekki um stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga að ræða takist samstarf við hlutaðeigandi um viðeigandi og hóflegar aðgerðir. Hins vegar sé ljóst að þegar taka þurfi stjórnvaldsákvörðun í máli, samanber 2. málslið 5. mgr. 12. gr. frumvarpsins, þá gildi stjórnsýslulögin. Ráðuneytið bendir á í minnisblaði sínu að ekki hafi verið talið rétt að afnema þær réttaröryggisreglur sem stjórnsýslulögin veita borgurunum í þessum málum þrátt fyrir að taka þurfi ákvarðanir hratt og með litlum aðdraganda, þ.e. að taka réttindi af borgurum, enda enginn vilji til þess. Reglur stjórnsýslulaganna eru almennt matskenndar og kröfur þeirra því breytilegar eftir ákvörðunum hverju sinni. Þannig eru gerðar minni kröfur um rannsókn máls í þeim tilvikum þegar málshraði skiptir miklu máli og öfugt.

Að þessu virtu telur nefndin ekki tilefni til að bregðast frekar við athugasemd Lögmannafélagsins hvað þennan þátt málsins varðar. Nefndin tekur fram að það heyri til undantekninga að stjórnvaldsákvarðanir séu teknar munnlega. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ber að jafnaði að staðfesta slíkar ákvarðanir skriflega eftir á svo fljótt sem verða má. Þetta er afar mikilvægt. Telur nefndin ljóst af orðalagi ákvæðisins að munnleg ákvörðun á grundvelli þess verður eingöngu tekin þegar brýnt er að bregðast við án tafar og ef töf á töku ákvörðunar kann að valda hættu.

Það var líka mjög mikil umræða í nefndinni um rannsóknarskyldu og mat á meðalhófi og skyldi engan undra. Ég vísa til þess að þarna erum við að fjalla um tengslin á milli þess sem við myndum kalla réttindi borgaranna og þess að við erum að verja almenning fyrir smitnæmum sjúkdómum. Eðli málsins samkvæmt kom fram að það er mjög mikilvægt að í öllum ákvörðunum sem snúa að sóttvörnum sé meðalhófs gætt. Ég held að mér sé óhætt að segja það hér, herra forseti, að það er ekki mikill ágreiningur um þetta í nefndinni. Ég er hins vegar jafn viss um að það kann að vera blæbrigðamunur á því á milli nefndarmanna hvað þeir kalla nákvæmlega meðalhóf á hverjum tíma. Það er bara allt í lagi. Það er mjög eðlilegt og hefur jafnvel með einfalda hluti eins og máltilfinningu að gera. Ég tel að nefndin sé ágætlega sammála um þetta þó að einhver blæbrigðamunur kunni að vera.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið að það þurfi að passa mjög vel upp á þetta og telur mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda, sama hvers eðlis þær eru, gangi aldrei lengra en brýna nauðsyn ber til hverju sinni. Það er líka ljóst að þeim aðgerðum, sem lagt er til í frumvarpinu að séu heimilar, ber að aflétta eftir því sem dregur úr nauðsyn þeirra, eða þá eftir atvikum að leggja til aðrar og vægari eftir því sem ástandinu sem á þær kallaði léttir.

Aðgerðum þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu og heimilaðar eru með setningu reglna á grundvelli þess er almennt ætlaður stuttur gildistími, samanborið við aðrar reglur sem stjórnvöld setja. Hvað varðar mat stjórnvalda á því hvort tilteknar ákvarðanir séu réttlætanlegar á hverjum tímapunkti, telur nefndin ljóst að frumvarpið beri með sér skýra kröfu um jafnræði og að þeim aðgerðum sem þar eru lagðar til verði ekki beitt nema að undangengnu mati á því hvort vægari úrræði nái sama markmiði. Hið sama eigi við um afléttingu.

Þetta er mjög mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu og hefur verið í þessum faraldri. Að mínu mati hafa stjórnvöld lagt sig fram um að skýra ákvarðanir sínar, hvort sem við köllum það með opinberum hætti, eins og á upplýsingafundum þríeykisins svokallaða eða með upplýsingagjöf á vefsíðum o.s.frv. Allt þetta er mjög mikilvægt til að almenningur hafi góða tilfinningu fyrir því að ekki sé verið að ganga lengra en þarf til að mæta grundvallarmarkmiðinu sem er að vernda líf og heilsu borgaranna.

Hvað það varðar hvort réttlætanlegt sé að beita aðgerðum gagnvart tilteknum aðilum, hópum eða starfsstéttum, leiðir það jafnframt af skýrri kröfu stjórnarskrárinnar um jafnræði sem og skráðum og óskráðum meginreglum um meðalhóf við töku ákvarðana. Þetta þarf að vera til staðar. Meðalhófsmat stjórnvalda skal ávallt fara fram með þeim hætti að athugað sé hvort þær aðgerðir sem gripið er til stangist á við réttindi annarra og þá jafnframt metið hvort vægari úrræði nái sama marki. Þá telur nefndin einnig mikilvægt að eftir því sem unnt er verði horft til heildarhagsmuna samfélagsins, þar með talið efnahagslegra, félagslegra og lýðheilsufræðilegra þátta. Þá verði jafnframt horft til hlutlægra mælikvarða eftir því sem við getur átt og aðgerðir stjórnvalda verði eins fyrirsjáanlegar og unnt er hverju sinni.

Umræða um hlutlæga mælikvarða fór fram í nefndinni að vissu marki en auðvitað eru ákveðnir þættir sem er mjög erfitt að setja á einhverja mælistiku. Hvað kostar það t.d. að einn veikist af tilteknum sjúkdómi? Það er voðalega erfitt að meta það vegna þess að það getur verið svo breytilegt frá einum sjúklingi til annars, sem dæmi. Í raun verða mælistikurnar og mælikvarðarnir alltaf miklu grófari en svo, það verður miklu frekar mælt hvað margir smitast, hvað þarf að taka mörg sýni, notaðir einhverjir harðir mælikvarðar, eitthvað sem raunverulega er hægt að mæla. Þar sem það er hins vegar hægt þá bendir nefndin á að hlutlægir mælikvarðar séu notaðir eftir því sem við getur átt.

Nefndin brýnir fyrir sóttvarnayfirvöldum að tryggja að þær ákvarðanir sem teknar verða á grundvelli sóttvarnalaga byggist ávallt, og það er mikilvægt að undirstrika það, á áðurnefndu meðalhófsmati og að þeim verði aflétt hratt og vel eftir því sem hægt er.

Smitrakning var nokkuð rædd í nefndinni og kannski ekkert skrýtið vegna þess að smitrakning eins og hún hefur verið stunduð á Íslandi hefur kannski verið einn af þeim lyklum í faraldrinum sem hafa skipt einna mestu máli. Hugtakið verður skilgreint í lögum, verði þetta frumvarp að lögum. Smitrakning er eitt þeirra úrræða sem er hægt að nota og hefur skipt miklu máli og reynst vel til að fylgjast með útbreiðslu kórónuveirunnar og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að smit dreifðist frekar. Þannig er hún einn hlekkur í mjög mikilvægri keðju og það er mikilvægt að yfirvöld hafi þetta úrræði í verkfærakistu sinni, ef þannig má komast að orði.

Það var aðeins rætt um hagnýta þekkingu heilbrigðisstétta, m.a. í kjölfar umsagnar þar um frá Sjúkraliðafélagi Íslands. Nefndin bendir á að það er mikilvægt að reyna að nýta hagnýta þekkingu þar sem það er hægt. Í erindi sjúkraliðafélagsins var rætt um hvort hún ætti að koma beint inn í sóttvarnaráð. Ég met það svo og nefndin að það sé kannski meiri þörf á því að praktíska þekkingin komi inn í sóttvarnanefndir viðkomandi stofnana, þar sem stofnanirnar eru sjálfar á vettvangi að ráða ráðum sínum með það hvernig sé best að haga starfi í tengslum við faraldur. Þar eigi þetta virkilega heima og þar kunni að vera skynsamlegt að margar stéttir með praktíska þekkingu komi að.

Breytingartillögur nefndarinnar eru nokkrar og þær eru reifaðar í nefndarálitinu og eru taldar upp á sérstöku þingskjali, nr. 807. Í fyrsta lagi eru það breytingartillögur sem snúa að skilgreiningum. Það var bent á að skilgreining á orðinu sótthreinsun væri ekki nægilega skýr. Nefndin tekur undir það og gerir breytingu þar að lútandi. Það var bent á að skilgreiningin á farsótt næði ekki nægilega vel utan um hugtakið og eftir töluverðar umræður í nefndinni var fallist á að breyta þeirri skilgreiningu eins og fram kemur í breytingartillögunni.

Það var nokkuð rætt um það að hugtakið sóttvarnahús væri í rauninni hvergi til. Það er til í lagatexta en hvergi er til skilgreining á því. Ég held að það hafi verið gagnlegt að fá þá umræðu inn í nefndina og ræða og við leggjum til að bætt sé við nýjum tölulið hvað þetta varðar til að taka dálítið betur utan um þetta hugtak. Þingmenn þekkja það náttúrlega af vinnunni í þessum faraldri að sóttvarnahús hafa verið töluvert mikið notuð. Jafnframt því að setja inn þessa breytingu setjum við inn almennilega heimild fyrir sóttvarnalækni til að leggja til að slíku úrræði sé komið á í faraldri. Það er nokkuð sem var ekki tekið fram með skýrum hætti í lögunum áður.

Við ræddum líka hvort breyta ætti skilgreiningunni á sóttkví. Það er skýrt í nefndarálitinu að í sjálfu sér sé hægt að skýra sóttkví með einum hætti en síðan geti sóttvarnalæknir eða sóttvarnayfirvöld eða ráðherra eftir atvikum ákveðið að sóttkví sé með misþungum takmörkunum á hverjum tíma. Það getur auðvitað farið eftir eðli sjúkdóma og eðli faraldra og nefndin bendir á það í áliti sínu.

Hlutverk sóttvarnaráðs var nokkuð rætt í umfjöllun nefndarinnar. Nokkrir aðilar bentu á það, bæði í umsögnum og fyrir nefndinni, að það væri ekki nógu skýrt. Í sjálfu sér tekur nefndin undir það en hins vegar erum við á því að sú breyting sem var lögð til í frumvarpinu geri í rauninni ekki nóg til að taka almennilega utan um hlutverk sóttvarnaráðs til framtíðar litið. Þess vegna leggur nefndin til að 5. gr., þar sem fjallað er um þetta, falli hreinlega brott. Hlutverki sóttvarnaráðs verði sérstaklega fundinn tími og vinna í heildarendurskoðun laganna. Það er mjög mikilvægt að það verði gert.

Í umfjöllun um 10. gr., um samræmi við stjórnarskrána, varð töluverð umræða. Í 10. gr. eru lagðar til breytingar á 12. gr. sem fjallar um sóttvarnir vegna hættu á farsóttum innan lands. Er m.a. lagt til að í 2. mgr. 12. gr. verði sérstaklega kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, um stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann. Jafnframt er lagt til að við 12. gr. laganna bætist ákvæði þess efnis að ekki skuli beita úrræðum samkvæmt greininni nema brýna nauðsyn beri til til verndar heilsu og lífi manna og að við beitingu ráðstafana, sem og afléttingu þeirra, skuli gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að.

Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands er bent á að hvorki megi skerða eignarrétt né atvinnufrelsi nema með lagaboði og að því tilskildu að almenningsþörf krefji, samanber 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrirmælin hafi í dómaframkvæmd verið túlkuð þannig að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni heldur verði löggjöfin að mæla fyrir um meginreglur þar sem fram komi umfang og takmörk þeirrar réttindaskerðingar sem talin er nauðsynleg. Laganefndin telur æskilegt að mæla nánar fyrir um takmörk og umfang skerðingar á atvinnufrelsi og eignarréttindum í lagatextanum en lagt er til í frumvarpinu. Bendir laganefndin á að í athugasemdum um 10. gr. í greinargerð með frumvarpinu sé að einhverju leyti fjallað um slík tilvik. Þar kemur fram að stöðvun atvinnurekstrar hafi hingað til stuðst við gildandi heimild til að kveða á um samkomubann og hafi beinst að starfsemi þar sem margt fólk kemur saman eða er í miklu návígi eða þar sem eðli starfsemi krefst snertingar. Þá kemur fram að hingað til hafi ekki verið gripið til útgöngubanns hér á landi og að vegna þess hve íþyngjandi slík ráðstöfun geti verið þurfi að gjalda varhuga við beitingu þess. Aðeins verði beitt útgöngubanni í algerum neyðartilvikum.

Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti er að nokkru leyti tekið undir athugasemdir Lögmannafélags Íslands, þó er á það bent að varhugavert kunni að vera að afmarka heimild til stöðvunar atvinnurekstrar einungis við það hvernig Covid-19 sjúkdómurinn smitast. Telur ráðuneytið að unnt sé að bregðast við athugasemdinni með þeim hætti að bæta nýjum málslið við d-lið 10. gr. frumvarpsins.

Sambærilegar athugasemdir er að finna í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Þar er vikið að mikilvægi þess að takmörkun á atvinnu- og eignarrétti verði að eiga sér skýra stoð í lögum.

Að þessu virtu leggur nefndin til að d-liður 10. gr. frumvarpsins verði nánar útfærður og tiltekið að ekki skuli stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér áhættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.

Þá leggur nefndin einnig til breytingar á b-lið 10. gr. frumvarpsins og samhliða því verði skilgreining 1. gr. um útgöngubann felld brott. Fyrir nefndinni kom fram að ekki hefði verið talin þörf á að setja útgöngubann í yfirstandandi faraldri og að ólíklegt væri að til slíks banns kæmi. Telur nefndin að umfjöllun um jafn viðamikið inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi fólks og útgöngubann felur í sér þarfnist ítarlegri umfjöllunar sem verði betri staður fundinn við heildarendurskoðun laganna. Með því móti er jafnframt, ef að líkum lætur, unnt að tryggja skjótari afgreiðslu frumvarpsins.

Í 11. gr. er fjallað um aðgerðir á landamærum. Það var farið töluvert mikið í það í nefndinni og fjallað um ráðstafanir og kannski einna mest um það, sem hefur verið talað svolítið um, sem er heimild til skyldubólusetningar á landamærum. Það er eins og með útgöngubannið að það er býsna stór ákvörðun að taka, t.d. í miðjum faraldri. Það er líka stór ákvörðun að það megi skylda menn til meðferðar út á það eitt að þeir séu að koma inn í landið. Höfum í huga að við getum ekki haft mismunandi reglur eftir því hvort ferðamaðurinn er frá erlendu ríki eða einhver sem er búsettur á Íslandi. Þetta skiptir mjög miklu máli. Það er ekki hægt að setja það sem skilyrði eða við lítum svo á að það þurfi alla vega mikla umræðu og það þurfi að vera mjög ströng skilyrði til að hægt sé að koma með þennan áskilnað. Við ákváðum því að vísa þessu atriði frekar til heildarendurskoðunar laganna og taka það út núna.

Síðan eru frekari breytingar á 11. gr. sem snúa m.a. að því að skjóta skýrari lagastoð undir tvöföldu skimunina, sem svo hefur verið kölluð, á landamærum. Það held ég að sé mikilvægt. Síðan er útskýrt að skimun með þeim hætti að taka t.d. strok af slímhúð eða eitthvað slíkt, sem má kalla óverulegt inngrip, falli undir það sem mætti kalla venjulega læknisskoðun.

Það var töluvert fjallað um tilkynningarskyldu ráðherra og hvort og með hvaða hætti ráðherra bæri að upplýsa þing um framgang í faraldri. Nefndin tekur undir sjónarmið um tilkynningarskyldu að nokkru leyti og setur inn áskilnað að standi sóttvarnaaðgerðir í faraldri í tvo mánuði eða lengur skuli ráðherra gefa skýrslu til þingsins að lágmarki á eins mánaðar fresti. Nefndin bendir jafnframt á að önnur upplýsingagjöf til þingsins geti komið til, eins og minnisblöð til nefnda eða frá öðrum ráðherrum sem standa fyrir stofnunum sem verða fyrir áhrifum af faraldri.

Kærur á stjórnvaldsákvörðunum sóttvarnalæknis voru nokkuð ræddar. Það er gerð breyting á því ákvæði. Það mátti skilja frumvarpið eins og það var að sóttvarnalæknir sjálfur eða sjálf eftir atvikum, þyrfti að vera sóknaraðili í slíkum málum. Hér er tekið fram að það geti verið löglærður fulltrúi embættis landlæknis sem sinni slíkum verkum.

Einnig var nokkuð rætt um kærufresti í málum og það er mikilvægt, sérstaklega í því tilliti að skilgreina með hvaða hætti réttindi borgaranna eru tryggð. Nefndin lendir því þannig, eins og kemur fram í 8. tölulið breytingartillöguskjalsins, að kærufrestir og annað slíkt skuli fara eftir almennum reglum um kæru í einkamálum.

Að lokum var síðan aðeins rætt um heilbrigðisskoðanir vegna ábendingar frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem benti á að eðli málsins samkvæmt væri ekki hægt að gera ráð fyrir því að í skimun hundruða eða þúsunda einstaklinga á landamærum væru til staðar tugir eða jafnvel enn þá fleiri læknismenntaðir einstaklingar sem sinntu slíkum heilbrigðisskoðunum. Nefndin tekur undir það og gerir breytingu til samræmis, þ.e. að þar sem stendur „læknisskoðun“ standi: heilbrigðisskoðun, sem gefur til kynna að sú skoðun kunni að vera unnin af öðrum en læknismenntuðu starfsfólki.

Með vísan til þess sem er rakið hér að framan leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Sara Elísa Þórðardóttir og Sigríður Á. Andersen skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Aðrir þingmenn sem skrifa undir álitið eru Ólafur Þór Gunnarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu í þessu viðamikla máli og hlakka til þeirrar umræðu sem hér mun fara fram.