151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er ekki með nokkru móti hægt að skilja 5. tölulið skilgreiningar í 1. gr. með þeim hætti að hægt sé að setja íhluti í fólk og skilja þá þar eftir. Það er ekki með nokkru móti hægt að skilja það þannig enda væri þá verið að tala um að setja inn einhvers konar ígræði. Það á alls ekki við þarna. Til þess að geta gert eitthvað slíkt eins og hv. þingmaður talar um þarf að rjúfa húð, sem er dálítið annað en að strjúka t.d. bómullarpinna eftir slímhúð eða bómullargrisju eftir yfirhúð. Nei, hv. þingmaður, við þurfum ekki hafa neinar áhyggjur af þessu.