151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nefndarálitið og prýðilega ræðu. Ég ætla að taka undir það með nefndinni að ég held að það sé góð ákvörðun að ráðast ekki í heildarendurskoðun á sóttvarnalögum á þeim tímum sem við lifum núna, þ.e. í miðri sóttvarnakrísu. Ég nefndi það við 1. umr. að það eru bæði kostir og gallar við það að ræða þetta mál í núverandi ástandi. Gallarnir eru augljóslega þeir að við erum svo upptekin af því að við lítum kannski fram hjá einhverjum öðrum þáttum. Mikilvægt var engu að síður að bregðast við og okkur hafði verið bent á að við þyrftum að tryggja að sóttvarnalög gæfu þær heimildir sem eðlilegar gætu talist í þeim faraldri sem við höfum verið að glíma við.

Ég er með tvær spurningar til hv. þingmanns. Sú fyrri varðar munnlegar stjórnvaldsákvarðanir. Nú verð ég að viðurkenna að ég er ekki lögfræðimenntuð og hef ekki oft heyrt talað um slíkar ákvarðanir. Mig langaði að vita hjá hv. þingmanni hvort það hafi verið nefnd einhver dæmi um slíkar ákvarðanir sem maður gæti séð fyrir.

Seinni spurningin varðar nágrannalönd okkar. Í ræðu við 1. umr. beindi ég því til hv. velferðarnefndar að hún myndi skoða hvernig þessu væri fyrir komið í nágrannalöndum okkar. Ég var þá að vísa í dæmi sem ég held örugglega að sé frá Noregi, þ.e. að ráðherra geti sett reglugerð en hún þurfi svo að öðlast samþykki á þinginu. Ég átta mig á því að það gengur ekki alveg að stjórnskipun okkar en mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig umræðan í nefndinni hafi verið varðandi þetta. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að lesa mig alveg í gegnum öll gögn málsins en eru einhverjar svona samantektir og upplýsingar um framkvæmd annars staðar á Norðurlöndunum varðandi sóttvarnamálin?