151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Fyrst varðandi munnlegar stjórnvaldsákvarðanir: Það geta til að mynda verið tilvik eins og þegar þarf í skyndi að taka ákvörðun, t.d. ef von er á stóru fólksflutningafarartæki til landsins, hvort sem það er flugvél eða farþegaskip, og í ljós kemur að um borð geisar einhvers konar faraldur. Þá getur verið mikilvægt að hafa heimild til að taka ákvörðun, stjórnvaldsákvörðun, um að farþegunum skuli ekki hleypt í land nema að undangengnu A, B eða C. Slíka ákvörðun getur þurft að taka með mjög stuttum fyrirvara. Nefndin talaði hins vegar mjög skýrt um það að þegar svoleiðis ákvarðanir eru teknar þá fylgi þeim síðan skriflegur rökstuðningur svo fljótt sem verða má. Það er mjög mikilvægt og ég tek undir það með hv. þingmanni að svona úrræði ætti ekki að þurfa að beita nema í algjörum undantekningartilfellum. Nefndin er alveg skýr með það.

Varðandi síðan það að þingið stimpli stjórnvaldsákvarðanir þá fór nokkur umræða fram um það í nefndinni og m.a. með komu allmargra lögfræðinga í stjórnsýslurétti. Ég held að mér sé óhætt að segja að almenna línan í þeirri umræðu hafi verið að stjórnskipan okkar geri ráð fyrir því að þingið setji lög sem setji framkvæmdarvaldinu ramma og þingið sé síðan ekki að vasast í því að stimpla stjórnvaldsákvarðanir eftir á. Hins vegar ákváðum við að fara þá leið að þegar svona ástand hefði staðið lengi bæri ráðherra skylda til að koma til þingsins og opna umræðu með skýrslugjöf.