151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að melta þetta aðeins með munnlegu stjórnvaldsákvarðanirnar því að fyrstu viðbrögð mín voru þau að ég hræddist þetta svolítið mikið. Ég ítreka að það þarf að vera ofboðslega skýrt að því þurfi að fylgja eftir með skriflegum rökstuðningi. Maður þarf aðeins að fá að melta þetta fyrirbrigði.

En aðeins varðandi hinn þáttinn sem ég ræddi: Mér verður bara hugsað til þess vegna þess að við erum með svona mál í gangi akkúrat núna varðandi sölu Íslandsbanka. Þar liggur fyrir heimild í fjárlögum, og hefur gert í mörg ár, til ráðherra að selja hlut ríkisins. Við erum með sérstök lög um hvernig á að standa að slíkri sölu. Hluti af því ferli er einmitt að ráðherra skal leita umsagnar eða álits efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar. Ég átta mig á því að það er ekki þannig að ráðherra geti skrifað reglugerð og hún taki strax gildi og við stimplum hana svo. Ég átta mig á því að það gengur ekki alveg í okkar stjórnarfyrirkomulagi. En þess vegna velti ég þessu upp og á kannski meira við heildarendurskoðun á sóttvarnalögum. Mér finnst nefnilega eins og umræðan í samfélaginu um sóttvarnalögin hafi að einhverju leyti verið svolítið villandi. Þegar við sem þjóðkjörnir fulltrúar höfum velt því upp hér hversu langt sé gengið og hversu langt megi ganga lýtur það auðvitað ekki að því að maður sé ekki hlynntur sóttvörnum og að hart sé gengið fram í þeim eins og gert hefur verið, heldur er spurningin hvar ákvarðanir skuli teknar, bara þannig að fólk átti sig á því að umræðan snýst um það. Við á þingi höfum sýnt að við getum brugðist mjög hratt við. Hér hefur lagasetning farið í gegn á einum degi — ég er ekki að segja að það sé endilega ofboðslega gott að hún geri það, en það er hægt þegar nauðsyn krefur að afgreiða lög á einum degi. Þótt til séu einhver tæki og tól sem við kynnum einhvern tímann að (Forseti hringir.) þurfa á að halda í sóttvarnaaðstæðum þá er ekki endilega ástæða til þess að skrifa það inn sem heimild til embættismanna að beita því, því að þingið getur alltaf brugðist við slíku.